Þegar Mannssonurinn kemur

31 Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni og allir englar með honum, þá mun hann sitja í dýrðarhásæti sínu. 32 Allar þjóðir munu safnast frammi fyrir honum og hann mun skilja þær að eins og hirðir skilur sauði frá höfrum. 33 Sauðunum skipar hann sér til hægri handar en höfrunum til vinstri. 34 Og þá mun konungurinn segja við þá til hægri: Komið þér, sem faðir minn á og blessar, og takið við ríkinu sem yður var ætlað frá grundvöllun heims. 35 Því hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég og þér hýstuð mig, 36 nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég og þér komuð til mín.
37 Þá munu þeir réttlátu segja: Drottinn, hvenær sáum vér þig hungraðan og gáfum þér að eta eða þyrstan og gáfum þér að drekka? 38 Hvenær sáum vér þig gestkominn og hýstum þig, nakinn og klæddum þig? 39 Og hvenær sáum vér þig sjúkan eða í fangelsi og komum til þín? 40Konungurinn mun þá svara þeim: Sannlega segi ég yður: Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér.
41 Síðan mun hann segja við þá til vinstri handar: Farið frá mér, bölvaðir, í þann eilífa eld sem búinn er djöflinum og árum hans. 42 Því hungraður var ég en þér gáfuð mér ekki að eta, þyrstur var ég en þér gáfuð mér ekki að drekka, 43 gestur var ég en þér hýstuð mig ekki, nakinn en þér klædduð mig ekki, ég var sjúkur og í fangelsi en ekki vitjuðuð þér mín.
44 Þá munu þeir svara: Drottinn, hvenær sáum vér þig hungraðan eða þyrstan, gestkominn eða nakinn, sjúkan eða í fangelsi og hjálpuðum þér ekki? 45 Hann mun þá svara þeim: Sannlega segi ég yður: Allt sem þér gerðuð ekki einum minna minnstu bræðra, það hafið þér ekki heldur gert mér. 46 Og þeir munu fara til eilífrar refsingar en hinir réttlátu til eilífs lífs.“