24. kafli

42 Vakið því, þér vitið eigi hvaða dag Drottinn yðar kemur. 43 Það skiljið þér að húsráðandi vekti og léti ekki brjótast inn í hús sitt ef hann vissi á hvaða stundu nætur þjófurinn kæmi. 44 Verið þér og viðbúin því að Mannssonurinn kemur á þeirri stundu sem þér ætlið eigi.
45 Hver er sá trúi og hyggni þjónn sem húsbóndinn hefur sett yfir hjú sín að gefa þeim mat á réttum tíma? 46 Sæll er sá þjónn er húsbóndinn finnur breyta svo er hann kemur. 47 Sannlega segi ég yður: Hann mun setja hann yfir allar eigur sínar. 48 En ef illur þjónn segir í hjarta sínu: Húsbónda mínum dvelst 49 og hann tekur að berja samþjóna sína og eta og drekka með svöllurum 50 þá mun húsbóndi þess þjóns koma á þeim degi sem hann væntir ekki, á þeirri stundu sem hann veit ekki, 51 höggva hann og láta hann fá hlut með hræsnurum. Þar verður grátur og gnístran tanna.“

25. kafli

Tíu meyjar

1 Enn sagði Jesús: „Þá er líkt um himnaríki og tíu meyjar sem fóru til móts við brúðgumann með lampa sína. 2 Fimm þeirra voru fávísar en fimm hyggnar. 3 Þær fávísu tóku lampa sína en höfðu ekki olíu með sér 4 en hinar hyggnu tóku olíu með á könnum ásamt lömpum sínum. 5 Nú dvaldist brúðgumanum og urðu þær allar syfjaðar og sofnuðu.
6 Um miðnætti kvað við hróp: Brúðguminn kemur, farið til móts við hann. 7 Þá vöknuðu meyjarnar allar og tóku til lampa sína. 8 En þær fávísu sögðu við þær hyggnu: Gefið oss af olíu yðar, það er að slokkna á lömpum vorum. 9 Þær hyggnu svöruðu: Nei, hún nægir aldrei handa öllum. Farið heldur til kaupmanna og kaupið handa yður. 10 Meðan þær voru að kaupa kom brúðguminn og þær sem viðbúnar voru gengu með honum inn til brúðkaupsins og dyrum var lokað.
11 Seinna komu hinar meyjarnar og sögðu: Herra, herra, ljúk upp fyrir oss. 12 En hann svaraði: Sannlega segi ég yður, ég þekki yður ekki.
13 Vakið því, þér vitið ekki daginn né stundina.