23 Ef einhver segir þá við yður: Hér er Kristur, eða: Þar, þá trúið því ekki. 24 Því að fram munu koma falskristar og falsspámenn og þeir munu gera stór tákn og undur svo að þeir gætu leitt hin útvöldu afvega ef það er unnt. 25 Athugið að ég hef sagt yður það fyrir.
26 Ef menn segja við yður: Hann er í óbyggðum, þá farið ekki þangað. Ef þeir segja: Hann er í leynum, þá trúið því ekki. 27 Mannssonurinn kemur eins og elding sem leiftrar frá austri til vesturs.
28 Þar munu ernirnir safnast sem hræið er.

Mannssonurinn kemur

29 En þegar eftir þrengingu þessara daga mun sólin sortna og tunglið hætta að skína. Stjörnurnar munu hrapa af himni og festingin mun riðlast. 30 Þá mun tákn Mannssonarins birtast á himni og allar kynkvíslir jarðar hefja kveinstafi. Og menn munu sjá Mannssoninn koma á skýjum himins með mætti og mikilli dýrð. 31 Hann mun senda út engla sína með hvellum lúðri og þeir munu safna hans útvöldu úr áttunum fjórum, himinskauta milli.

Sumar í nánd

32 Nemið líkingu af fíkjutrénu. Þegar greinar þess fara að mýkjast og laufið að springa út, þá vitið þér að sumar er í nánd. 33 Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið allt þetta, að hann er í nánd, fyrir dyrum. 34 Sannlega segi ég yður: Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok uns allt þetta er komið fram. 35 Himinn og jörð munu líða undir lok en orð mín munu aldrei undir lok líða.

Vakið því

36 En þann dag og stund veit enginn, hvorki englar á himnum né sonurinn,[ enginn nema faðirinn einn. 37 Eins og var á dögum Nóa, svo mun verða við komu Mannssonarins. 38 Dagana fyrir flóðið átu menn og drukku, kvæntust og giftust allt til þess dags er Nói gekk í örkina. 39 Og þeir vissu ekki fyrr en flóðið kom og hreif þá alla burt. Eins verður við komu Mannssonarins. 40 Þá verða tveir á akri, annar mun tekinn, hinn eftir skilinn. 41 Tvær munu mala á kvörn, önnur verður tekin, hin eftir skilin.