Einn er yðar meistari

1 Þá talaði Jesús til mannfjöldans og lærisveina sinna: 2 „Á stóli Móse sitja fræðimenn og farísear. 3 Því skuluð þér gera og halda allt sem þeir segja yður en eftir breytni þeirra skuluð þér ekki fara því þeir breyta ekki sem þeir bjóða. 4 Þeir binda þungar byrðar og leggja mönnum á herðar en sjálfir vilja þeir ekki snerta þær einum fingri. 5 Öll sín verk gera þeir til að sýnast fyrir mönnum, þeir breikka minnisborða sína og stækka skúfana. 6 Ljúft er þeim að skipa hefðarsæti í veislum og æðsta bekk í samkundum, 7 láta heilsa sér á torgum og kallast meistarar af mönnum. 8 En þér skuluð ekki láta kalla yður meistara því einn er yðar meistari og þér öll bræður og systur.[ 9 Þér skuluð ekki kalla neinn föður yðar á jörðu því einn er faðir yðar, sá sem er á himnum. 10 Þér skuluð ekki heldur láta kalla yður leiðtoga því einn er leiðtogi yðar, Kristur. 11 Sá mesti meðal yðar sé þjónn yðar. 12 Hver sem upp hefur sjálfan sig mun auðmýktur verða en sá sem lítillækkar sjálfan sig mun upp hafinn verða.

Blindir leiðtogar

13 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér læsið himnaríki fyrir mönnum. Sjálfir gangið þér ekki þar inn og þeim sem inn vilja ganga leyfið þér eigi inn að komast.
14 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér flytjið langar bænir að yfirskini og hlunnfarið ekkjur og hafið af þeim heimili þeirra. Þér munuð fá því þyngri dóm.][
15 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér farið um láð og lög til að snúa einum til yðar trúar og þegar það tekst gerið þér hann hálfu verra vítisbarn en þér sjálfir eruð.
16 Vei yður, blindir leiðtogar! Þér segið: Ef einhver sver við musterið þá er það ógilt en sverji menn við gullið í musterinu þá er það gildur eiður. 17 Blindu heimskingjar, hvort er meira gullið eða musterið sem helgar gullið? 18Þér segið: Ef einhver sver við altarið þá er það ógilt en sverji menn við fórnina, sem á því er, þá er það gildur eiður. 19 Blindu menn, hvort er meira fórnin eða altarið sem helgar fórnina? 20 Sá sem sver við altarið sver við það og allt sem á því er. 21 Sá sem sver við musterið sver við það og við þann sem í því býr. 22 Og sá sem sver við himininn sver við hásæti Guðs og við þann sem í því situr.