Mikil áskorun
Á heimsvísu er áætlað að um 70 milljónir heyrnarskertra manna noti táknmál sem sitt fyrsta tungumál, en það er einnig almennt kallað fingramál.
En af hinum 400 einstöku táknmálum sem til eru geyma aðeins 10% þeirra einhvern hluta Ritningarinnar.
Ekkert táknmál í heiminum hefur að geyma heildstæða Biblíu, en það táknmál sem kemst næst því er Nýja testamentið á bandarísku táknmáli.
Talið er að um 285 milljónir manna á þessari plánetu glími við sjónskerðingu og af þeim eru 14 af hundraði lögblindir.
En aðeins 44 tungumál geyma Biblíuna á blindaraletri, aðallega vegna þess að umritun og prentun Ritningarinnar á blindraletri er gríðarlega umfangsmikið verkefni og rándýrt — fullbúin Biblía á blindraletri hefur að geyma rösklega 40 fyrirferðarmikil bindi og það kostar um það bil 600 Bandaríkjadali að prenta hana.
Nýlegur framgangur
Áskorunin er því gífurleg. En Guði er ekkert um megn. Og Sameinuðu biblíufélögin (UBS) vinna nú með fjölda alþjóðlegs samstarfsfólks að því að mæta þörfum beggja þessara hópa, sem tiltölulega erfitt er að ná til.
Reyndar unnu biblíufélög 32 landa að blindraletursverkefni með það að markmiði að mæta þörfum blindra lesenda. Langfyrstu hlutar Biblíunnar á blindraletri voru gefnir út á tveimur tungumálum, í Úganda og á Indlandi.
Í Rómönsku Ameríku var lokið við Dios Habla Hoy útgáfu spænsku Biblíunnar, sem þýðir að nú er hægt að prenta öll 44 bindin á blindraletri eftir þörfum.
Hvað næst?
Framþróun tækninnar hefur ennfremur gert sitt til þess að mæta þessari þörf. Sameinuðu biblíufélögin hafa þróað nýjan hugbúnað til þess að hjálpa heyrnar- og mállausum með þýðingum og umritunum á blindraletur, með biblíuöppum fyrir snjallsíma sem hafa gert biblíulestur svo aðgengilegan fyrir alla alls staðar, hvort sem fólk glímir við sjón- eða heyrnarskerðingu eða ekki.
Verið svo væn að biðja fyrir Sameinuðu biblíufélögum, þar sem þau stefna að því í samstarfi við einstök biblíufélög að ná til fólks út um allan heim sem ekki getur lesið Biblíuna vegna sjón- eða heyrnarskerðingar.
[Þorgils Hlynur Þorbergsson guðfræðingur sneri þessari grein úr ensku en greinin kemur frá Hinu skoska Biblíufélagi.]