Vondir vínyrkjar

33 Enn sagði Jesús: „Heyrið aðra dæmisögu: Landeigandi nokkur plantaði víngarð. Hann hlóð garð um hann, gróf fyrir vínþröng og reisti turn, seldi hann síðan vínyrkjum á leigu og fór úr landi. 34 Þegar ávaxtatíminn nálgaðist sendi hann þjóna sína til vínyrkjanna að fá ávöxt sinn. 35 En vínyrkjarnir tóku þjóna hans, börðu einn, drápu annan og grýttu hinn þriðja. 36 Aftur sendi hann aðra þjóna, fleiri en þá fyrri, og eins fóru þeir með þá. 37 Síðast sendi hann til þeirra son sinn og sagði: Þeir munu virða son minn. 38 Þegar vínyrkjarnir sáu soninn sögðu þeir sín á milli: Þetta er erfinginn. Förum og drepum hann og náum arfi hans. 39 Og þeir tóku hann, köstuðu honum út fyrir víngarðinn og drápu hann.
40 Hvað mun nú eigandi víngarðsins gera við vínyrkja þessa þegar hann kemur?“
41 Þeir svara: „Hann mun vægðarlaust tortíma þeim vondu mönnum og selja víngarðinn öðrum vínyrkjum á leigu sem gjalda honum ávöxtinn á réttum tíma.“
42 Og Jesús segir við þá: „Hafið þið aldrei lesið í ritningunum:
Steinninn sem smiðirnir höfnuðu
er orðinn að hyrningarsteini.
Þetta er verk Drottins
og undursamlegt í augum vorum.

43 Þess vegna segi ég ykkur: Guðs ríki verður tekið frá ykkur og gefið þeirri þjóð sem ber ávexti þess. [ 44 Sá sem fellur á þennan stein mun sundur molast og þann sem hann fellur á mun hann sundur merja.]“[
45 Þegar æðstu prestarnir og farísearnir heyrðu dæmisögur Jesú skildu þeir að hann átti við þá. 46 Þeir vildu taka hann höndum en óttuðust fólkið þar eð menn töldu hann vera spámann.