Fíkjutré við veginn

18 Árla morguns hélt Jesús aftur til borgarinnar og kenndi hungurs. 19 Hann sá fíkjutré eitt við veginn og gekk að því en fann þar ekkert nema blöðin tóm. Hann segir við það: „Aldrei framar vaxi ávöxtur á þér að eilífu.“ Og fíkjutréð visnaði þegar í stað.
20 Lærisveinarnir sáu þetta, undruðust og sögðu: „Hvernig gat fíkjutréð visnað svo fljótt?“
21 Jesús svaraði þeim: „Sannlega segi ég ykkur: Ef þið eigið trú og efist ekki getið þið ekki aðeins gert slíkt sem fram kom við fíkjutréð. Þið gætuð enda sagt við fjall þetta: Lyft þér upp og steyp þér í hafið, og svo mundi fara. 22Ef þið trúið munuð þið öðlast allt sem þið biðjið.“

Með hvaða valdi?

23 Jesús gekk í helgidóminn. Þá komu æðstu prestarnir og öldungarnir til hans þar sem hann var að kenna og spurðu: „Með hvaða valdi gerir þú þetta? Hver gaf þér þetta vald?“
24 Jesús svaraði þeim: „Ég vil og leggja eina spurningu fyrir ykkur. Ef þið svarið mér mun ég segja ykkur með hvaða valdi ég geri þetta. 25 Hver fól Jóhannesi að skíra, var það Guð eða voru það menn?“ Þeir ráðguðust hver við annan um þetta og sögðu: „Ef við svörum: Það var Guð, spyr hann: Hví trúðuð þið honum þá ekki? 26 Ef við segjum: Það voru menn, megum við óttast fólkið því að allir telja Jóhannes spámann.“ 27 Og þeir svöruðu Jesú: „Við vitum það ekki.“
Jesús sagði við þá: „Ég segi ykkur þá ekki heldur hver fól mér að gera þetta.“

Tveir synir

28 Jesús sagði: „Hvað virðist ykkur? Maður nokkur átti tvo syni. Hann gekk til hins fyrra og sagði: Sonur minn, far þú og vinn í dag í víngarði mínum. 29 Hann svaraði: Það vil ég ekki. En eftir á sá hann sig um hönd og fór. 30 Þá gekk hann til hins síðara og mælti á sömu leið. Hann svaraði: Já, herra, en fór hvergi. 31 Hvor þeirra gerði vilja föðurins?“
Þeir svara: „Sá fyrri.“
Þá mælti Jesús: „Sannlega segi ég ykkur: Tollheimtumenn og skækjur verða á undan ykkur inn í Guðs ríki. 32 Því að Jóhannes kom til ykkar og vísaði ykkur á réttan veg og þið trúðuð honum ekki en tollheimtumenn og skækjur trúðu honum. Það sáuð þið en tókuð samt ekki sinnaskiptum og trúðuð honum.“