Pottur á hlóðum

1 Orð Drottins kom til mín á tíunda degi tíunda mánaðarins í níunda árinu: 2 Mannssonur, skráðu nákvæmlega dagsetningu dagsins í dag. Konungurinn í Babýlon hóf árás á Jerúsalem einmitt þennan dag. 3 Talaðu í líkingu til þessarar þvermóðskufullu þjóðar og segðu:
Svo segir Drottinn Guð:
Settu pott á hlóðir, settu hann upp.
Helltu í hann vatni,
4bættu í kjötstykkjum,
aðeins úrvalsbitum
af lend og bógi.
Fylltu hann bestu beinunum.
5Taktu það vænsta úr sauðahjörðinni.
Leggðu við undir pottinn,
láttu suðuna koma upp á kjötinu
og sjóddu beinin með.

6 Þess vegna segir Drottinn Guð: Vei hinni blóði drifnu borg, pottinum sem er ryðgaður og ryðið næst ekki af. Taktu hvert kjötstykkið af öðru upp úr honum án þess að varpa hlutum um þau. 7 Því að blóðið, sem hún úthellti, er enn í henni. Hún úthellti því á bera klöpp en ekki á jörðina til að það yrði hulið mold. 8 Til að vekja reiði og hefna þessa úthellti ég blóði hennar á bera klöpp svo að það yrði ekki hulið.
9 Þess vegna segir Drottinn Guð: Vei hinni blóði drifnu borg. Ég hleð einnig mikinn bálköst. 10 Hrúgið upp viðnum, kveikið eld, fullsjóðið kjötið, hellið af því soðinu, látið beinin brenna. 11 Setjið síðan tóman pottinn á glóandi kolin svo að hann hitni og eirinn verði glóandi og óhreinindin í honum bráðni og ryðið hverfi. 12 En erfiðið var til einskis. Ryðið er svo mikið að það næst ekki af í eldinum. 13 Ég ætlaði að hreinsa þig af sora ólifnaðar þíns en þú varðst ekki hrein. Þess vegna skaltu ekki verða hrein af saurgun þinni fyrr en ég hef svalað heift minni á þér. 14 Ég, Drottinn, hef talað og ég mun framfylgja því sem ég hef sagt. Mér fallast ekki hendur, ég sýni enga vægð og iðrast einskis. Ég mun dæma þig eftir breytni þinni og verkum, segir Drottinn Guð.