32 Svo segir Drottinn Guð:
Þú skalt drekka bikar systur þinnar,
hinn djúpa og víða, sem tekur svo mikið.
Þú skalt höfð að athlægi og spotti,
33 komast í vímu og fyllast kvöl.
Bikar skelfingar og eyðingar
er bikar systur þinnar, Samaríu.
34 Þú skalt drekka hann í botn
og bryðja úr honum brotin
og rífa brjóst þín.
Því að ég hef talað, segir Drottinn Guð.

35 Því segir Drottinn Guð: Þar sem þú hefur gleymt mér og snúið við mér baki verður þú að bera afleiðingar hórdóms þíns og ólifnaðar.
36 Drottinn sagði enn fremur við mig: Þú, mannssonur, viltu ekki dæma Oholu og Oholíbu? Leiddu þeim svívirðu þeirra fyrir sjónir. 37 Þær hafa drýgt hór og hendur þeirra eru flekkaðar blóði. Þær hafa tekið fram hjá með skurðgoðum sínum og þar á ofan látið synina, sem þær ólu mér, ganga gegnum eld, skurðgoðunum til matar. 38Jafnframt þessu saurguðu þær helgidóm minn og vanhelguðu hvíldardaga mína. 39 Þegar þær höfðu slátrað sonum mínum handa skurðgoðunum komu þær í helgidóm minn til að vanhelga hann. Þetta gerðu þær í húsi mínu. 40 Þær sendu jafnvel eftir mönnum sem komu frá fjarlægum löndum. Þegar boðberi hafði sótt þá komu þeir. Þeirra vegna fórstu í bað, málaðir þig um augun og skreyttir þig skartgripum. 41 Þú settist á uppbúið rúm með dúkað borð fyrir framan þig sem þú settir á reykelsi mitt og olíu. 42 Áhyggjulaus og hávaðasamur hópur manna var umhverfis og þeirra á meðal svölluðu menn sem sóttir höfðu verið út í eyðimörkina. Þeir drógu armbönd á handleggi þeirra systra og settu dýrlegt djásn á höfuð þeirra.
43 Þá sagði ég: Þessi skækja er illa farin af hórdómi, þó hórast þeir enn með henni. 44 Menn komu til hennar. Þeir komu til Oholu og Oholíbu eins og menn koma til skækju. 45 En réttlátir menn munu dæma þær eftir lagaákvæðum um hjúskaparbrot og morð því að þær eru hórsekar og hendur þeirra eru flekkaðar blóði.
46 Því að svo segir Drottinn Guð: Múg manns skal stefnt gegn þeim og þær skulu framseldar til misþyrminga og ráns. 47 Þær skulu grýttar og höggnar með sverðum. Synir þeirra og dætur skulu tekin af lífi og hús þeirra brennd. 48 Þannig bind ég enda á ólifnaðinn í landinu svo að allar konur láti sér að kenningu verða og stundi ekki sama ólifnað og þið. 49 Afleiðingar ólifnaðar ykkar verða lagðar á ykkur og þið verðið að bera afleiðingar synda ykkar með skurðgoðum ykkar. Þá munuð þið skilja að ég er Drottinn Guð.