Systurnar Samaría og Jerúsalem

1 Orð Drottins kom til mín: 2 Mannssonur, einu sinni voru tvær konur, dætur sömu móður. 3 Þær stunduðu ólifnað í Egyptalandi, þær hóruðust þar á æskuárum. Þar þukluðu menn brjóst þeirra og gældu við meyjarbarm þeirra. 4 Sú eldri hét Ohola og systir hennar Oholíba. Þær urðu eiginkonur mínar og ólu bæði syni og dætur. Nafnið Ohola táknar Samaríu en Oholíba Jerúsalem.
5 En Ohola tók fram hjá mér. Hún girntist ástmenn sína, Assýringa, 6 hermenn klædda bláum purpura, landstjóra og fyrirmenn. Allt voru þetta glæsileg ungmenni, riddarar ríðandi á hestum. 7 Hún leitaði lags við alla fremstu Assýringa í ólifnaði sínum og saurgaði sig á skurðgoðum allra þeirra sem hún girntist. 8 Hún lét ekki af ólifnaðinum, sem hún hóf í Egyptalandi, þar sem Egyptar höfðu lagst með henni í æsku hennar, gælt við meyjarbarm hennar og ausið yfir hana ólifnaði sínum. 9 Því seldi ég hana í hendur ástmanna sinna, Assýringanna sem hún girntist. 10Þeir beruðu blygðun hennar, tóku syni hennar og dætur frá henni og réðu henni bana með sverði. Hún varð því öðrum konum víti til varnaðar. Þannig var refsidóminum yfir henni fullnægt.