Ísrael í bræðsluofninum

17 Orð Drottins kom til mín:
18 Mannssonur, Ísraelsmenn eru orðnir mér sori. Þeir eru allir kopar, tin, járn og blý í bræðsluofni. Þeir eru orðnir sorasilfur. 19 Segðu því: Svo segir Drottinn Guð: Þar sem þið eruð allir orðnir sori safna ég ykkur saman í Jerúsalem miðri. 20 Eins og silfri, kopar, járni, blýi og tini er safnað saman í bræðsluofni og síðan blásið að eldinum og það brætt í honum, eins mun ég safna ykkur saman í reiði minni og heift í Jerúsalem og bræða ykkur. 21 Ég mun safna ykkur og blása eldi bræði minnar að ykkur svo að þið bráðnið í honum. 22 Eins og silfur er brætt í ofni verðið þið bræddir í eldi. Þá munuð þið skilja að ég er Drottinn.
23 Orð Drottins kom til mín: 24 Mannssonur, segðu við landið: Þú ert land sem ekki rigndi á, ekki var vökvað á degi reiðinnar. 25 Höfðingjar þess líktust öskrandi ljónum sem rífa í sig bráð. Þeir gleyptu í sig menn, hrifsuðu til sín verðmæti og dýrgripi og fjölguðu ekkjunum í landinu. 26 Prestar landsins brutu lög mín og vanhelguðu helgigjafir mínar. Þeir gerðu engan mun á helgu og vanhelgu, né heldur fræddu þeir um mun á hreinu og óhreinu, og lokuðu augum sínum fyrir hvíldardögum mínum. Þannig vanhelgaðist ég á meðal þeirra. 27 Embættismennirnir í landinu voru eins og úlfar sem rífa í sig bráð, úthelltu blóði og eyddu mannslífum til að komast yfir gróða. 28 Spámenn landsins kölkuðu fyrir þá yfir þetta allt með tálsýnum og upplognum spámannsorðum og sögðu: „Svo segir Drottinn Guð,“ þótt Drottinn hafi ekki talað. 29 Almenningur beitti ofbeldi og rændi, kúgaði fátæka og umkomulausa og beitti þá ofríki sem leituðu á náðir hans og meinaði þeim að leita réttar síns. 30 Ég leitaði að einhverjum þeirra á meðal sem vildi reisa varnarvegg eða taka sér stöðu andspænis mér, í skarðinu í múrnum, landinu til varnar svo að ég þyrfti ekki að eyða því. En ég fann engan. 31 Þá jós ég heift minni yfir þá, ég gereyddi þeim í heiftarbáli mínu. Ég lét breytni þeirra koma niður á þeim, segir Drottinn Guð.