Borgin blóði drifna

1 Orð Drottins kom til mín:
2 Mannssonur, viltu ekki dæma, viltu ekki dæma þessa morðseku borg? Leiddu henni fyrir sjónir öll hin viðurstyggilegu verk hennar 3 og segðu: Svo segir Drottinn Guð: Þú borg, sem úthellir blóði á strætum þínum, tími reikningsskilanna kemur. Þú gerðir þér skurðgoð sem þú saurgast af, 4 þú ert sek vegna blóðsins sem þú hefur úthellt og saurguð vegna skurðgoðanna sem þú gerðir. Dagar þínir eru taldir, ár þín eru á enda. Þess vegna hef ég látið aðrar þjóðir hlæja að þér og gert þig að athlægi um öll lönd. 5 Bæði þeir sem búa nærri þér og þeir sem búa þér fjarri hlæja að þér því að mannorð þitt er flekkað, svo róstusöm sem þú ert.
6 Höfðingjar Ísraels, sem bjuggu í þér, treystu allir á mátt sinn til að úthella blóði. 7 Faðir og móðir eru fyrirlitin í þér og þeir sem leita hælis beittir ofbeldi innan múra þinna, ekkjan og munaðarleysinginn kúguð í þér. 8 Þú fyrirlítur það sem mér er heilagt, vanhelgar hvíldardaga mína. 9 Í þér eru rógberar sem úthella blóði, menn sem halda fórnarmáltíðir á fjöllum. Innan borgarmúra þinna iðka menn saurlifnað, 10 svívirða konu föður síns, misnota konu sem hefur á klæðum, 11 þar fremja menn svívirðu með eiginkonu náunga síns, þá svívirðu að flekka tengdadóttur sína og nauðga systur sinni, dóttur föður síns. 12 Í þér þiggja menn mútur til að úthella blóði. Þú tekur vexti, stundar okur og hefur fé af náunga þínum með ofríki en mér hefur þú gleymt, segir Drottinn Guð.
13 Ég slæ saman höndum mínum vegna okurgróðans sem þú hefur aflað þér og sökum blóðsins sem úthellt hefur verið á strætum þínum. 14 Verður hugrekki þitt óbugað, halda hendur þínar styrk sínum þegar þeir dagar koma er ég tek þig fyrir? Ég, Drottinn, hef talað og ég mun gera eins og ég hef sagt.
15 Ég mun tvístra íbúum þínum meðal framandi þjóða og dreifa þeim um löndin. Ég bind enda á saurgun þína, 16vegna þín mun ég vanhelgast[ í augum þjóðanna. Þú munt viðurkenna að ég er Drottinn.