18. kafli

21 En snúi guðlaus maður frá öllum sínum syndum, haldi hann öll mín lög og geri það sem er rétt og réttlátt, skal hann sannarlega lifa, hann skal ekki deyja. 22 Afbrotanna, sem hann framdi, verður ekki minnst honum til skaða. Hann skal lifa vegna þess réttlætis sem hann iðkar. 23 Þóknast mér dauði hins guðlausa? segir Drottinn Guð. Þóknast mér ekki miklu fremur að hann snúi frá breytni sinni og lifi?
24 En snúi réttlátur maður frá réttlæti sínu og fremji ranglæti og vinni öll þau sömu viðurstyggilegu verk og hinn guðlausi hefur unnið, á hann þá að halda lífi? Réttlætisverkanna sem hann vann verður ekki minnst. Vegna sviksemi sinnar og syndanna sem hann drýgði skal hann deyja.
25 Nú segið þið: „Drottinn breytir ekki rétt.“ En hlustið nú, Ísraelsmenn: Er það breytni mín sem ekki er rétt? Eruð það ekki öllu fremur þið sem breytið ekki rétt? 26 Þegar réttlátur maður hverfur frá réttlæti sínu og fremur ranglæti og deyr hefur hann dáið vegna þess ranglætis sem hann framdi. 27 Þegar guðlaus maður snýr frá því ranglæti sem hann hefur framið og iðkar rétt og réttlæti mun hann halda lífi. 28 Hann hefur séð að sér og snúið baki við afbrotunum sem hann framdi. Hann skal halda lífi, hann skal ekki deyja.
29 En Ísraelsmenn segja: „Drottinn breytir ekki rétt.“ Er það breytni mín sem ekki er rétt, Ísraelsmenn, eruð það ekki öllu fremur þið sem breytið ekki rétt? 30 Því mun ég dæma ykkur, Ísraelsmenn, sérhvern eftir sinni breytni, segir Drottinn Guð. Snúið við, hverfið frá öllum afbrotum ykkar svo að þau verði ykkur ekki að falli. 31 Varpið frá ykkur öllum þeim afbrotum sem þið hafið framið. Fáið ykkur nýtt hjarta og nýjan anda. Hvers vegna viljið þið deyja, Ísraelsmenn? 32 Því að mér þóknast ekki dauði nokkurs manns, segir Drottinn Guð. Snúið við svo að þið lifið.

19. kafli

Harmljóð um höfðingja Ísraels

1 Flyttu harmljóð um höfðingja Ísraels 2 og segðu:
Hvílík ljónynja var móðir þín
meðal ljónanna.
Hún lá meðal ungljóna,
ól upp ljónshvolpa sína.
3Hún kom einum þeirra upp,
hann varð fullvaxta ungljón,
lærði að rífa í sig bráð,
hann át menn.
4Þá voru framandi þjóðir kvaddar saman
gegn honum,
hann var fangaður í gryfju þeirra.
Þær drógu hann með krókum til Egyptalands.
5Þegar ljónynjan skildi að von hennar hafði brugðist,
var orðin að engu,
valdi hún annan af hvolpum sínum,
ól önn fyrir honum uns hann varð ungljón.
6Hann eigraði um meðal ljóna,
varð fullvaxta ungljón,
lærði að rífa í sig bráð,
hann át menn.
7Hann braut virki þeirra
og lagði borgir þeirra í rústir
svo að landið og íbúar þess
stirðnuðu af skelfingu
við öskur hans.
8Þá voru þjóðir sendar gegn honum
frá löndunum umhverfis,
þær þöndu út net fyrir hann,
hann var fangaður í gryfju þeirra.
9Með krókum var hann settur í búr
og færður til konungsins í Babýlon.
Honum var fleygt í svarthol
svo að öskur hans heyrðist ekki framar
á fjöllum Ísraels.