Örninn, sedrustréð og vínviðurinn

1 Orð Drottins kom til mín:
2 Mannssonur, farðu með gátu fyrir Ísraelsmenn, flyttu þeim líkingu 3 og segðu: Svo segir Drottinn Guð:
Stór örn með vítt vænghaf,
mikla vængi og þéttan, marglitan fjaðurham
kom til Líbanons og svipti toppnum af sedrustrénu.
4Hann reif af hæsta sprotann
og fór með hann til lands kaupahéðna,
gróðursetti hann í borg prangaranna.
5Þá tók hann einnig fræ úr landinu
og sáði því í frjóa jörð
þar sem nóg var af vatni.
6Fræið dafnaði, varð að vínviði
sem þroskaðist, lágur vexti.
Hann teygði greinar sínar til arnarins
en ræturnar uxu niður.
Hann varð að vínviði,
myndaði rótarskot og bar greinar.
7Þá bar að annan örn, stóran,
með mikið vænghaf og þéttar fjaðrir
og vínviðurinn sneri rótum sínum til hans
og teygði greinar sínar til hans
svo að hann fengi vökvun,
meiri en reiturinn
sem hann var gróðursettur í.
8Samt var hann gróðursettur í frjóa jörð
þar sem nóg var af vatni
svo að hann fengi greinar,
bæri ávöxt
og yrði gróskumikill vínviður.
9Segðu: Svo segir Drottinn Guð:
Mun hann dafna?
Verður hann ekki rifinn upp með rótum,
ávextirnir slitnir af honum
svo að safaríkur vaxtarbroddurinn visnar?
Þá þarf hvorki sterkan handlegg
né marga menn
til að slíta hann af rót sinni.
10Hann var að vísu gróðursettur
en mun hann dafna?
Hlýtur hann ekki að skrælna
þegar brennheitt austanrokið blæs á hann?
Hann mun visna í reitnum þar sem hann óx.