44 Sá sem talar um þig í málsháttum hlýtur að segja: „Mær er jafnan móður lík.“ 45 Þú ert dóttir móður þinnar sem hafði andstyggð á eiginmanni sínum og börnum og þú ert systir systra þinna sem höfðu andstyggð á eiginmönnum sínum og börnum. Móðir ykkar var Hetíti og faðir ykkar Amoríti. 46 Eldri systir þín er Samaría, sem býr með dætrum sínum norðan við þig, og yngri systir þín er Sódóma sem býr sunnan við þig ásamt dætrum sínum. 47 En þú breyttir ekki aðeins eins og þær og framdir sömu svívirðingar og þær, heldur tókst þú þeim fljótlega fram í spilltu líferni. 48Svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn Guð, Sódóma systir þín og dætur hennar hafa aldrei gert það sem þú og dætur þínar hafa gert. 49 Sekt Sódómu, systur þinnar, var að hún og dætur hennar lifðu í allsnægtum og bjuggu í makindum en réttu hinum fátæku og hjálparlausu ekki hjálparhönd. 50 Þær urðu drambsamar og unnu viðbjóðsleg verk frammi fyrir mér. Þess vegna hafnaði ég þeim eins og þú hefur séð. 51 Samaría hefur ekki einu sinni drýgt helminginn af þínum syndum. Þú hefur unnið miklu fleiri viðbjóðsleg verk en báðar systur þínar. Vegna allra þeirra viðbjóðslegu verka sem þú hefur unnið virðast systur þínar réttlátar. 52 Sjálf máttu bera smán þína. Þú hefur veitt systrum þínum uppreisn æru með syndum þínum sem eru viðbjóðslegri en þeirra svo að þær virðast réttlátari en þú. Skammastu þín og berðu þá hneisu að hafa sýnt fram á að systur þínar eru réttlátari en þú.
53 En ég mun snúa högum þeirra, högum Sódómu og dætra hennar og högum Samaríu og dætra hennar og högum þínum sem ert á milli þeirra 54 svo að þú takir smán þína á þig og fyrirverðir þig fyrir allt sem þú hefur gert og varð þeim til huggunar. 55 Systir þín, Sódóma, og dætur hennar skulu verða aftur eins og áður og systir þín, Samaría, og dætur hennar skulu verða aftur eins og áður og þú sjálf og dætur þínar skuluð verða eins og áður.
56 Rægðir þú ekki Sódómu systur þína á velmektardögum þínum 57 áður en illska þín var afhjúpuð? Nú lítilsvirða konur Edómíta þig og allir nágrannar þeirra og konur Filistea sem fyrirlíta þig. 58 Þú verður að taka afleiðingum skammarlegrar hegðunar þinnar og viðbjóðslegra verka.
59 Því að svo segir Drottinn Guð: Ég geri þér það sem þú hefur gert, þú sem hafðir eiðinn að engu og raufst sáttmálann. 60 En ég mun minnast sáttmála míns við þig frá bernskudögum þínum og ég mun gera við þig ævarandi sáttmála. 61 Þá muntu minnast breytni þinnar og skammast þín þegar ég veiti systrum þínum sæmd, bæði þeim eldri og hinum yngri. Ég gef þér þær að dætrum, þó ekki vegna sáttmálans við þig. 62 Ég mun gera sáttmála minn við þig og þú munt skilja að ég er Drottinn 63 svo að þú minnist þess og skammist þín. Þú skalt ekki framar dirfast að opna munn þinn af skömm þegar ég hef bætt fyrir allt sem þú hefur gert, segir Drottinn Guð.