21 Þurftir þú líka að slátra sonum þínum og færa þá skurðgoðunum að fórn með því að láta þá ganga í gegnum eld? 22 En í öllum ódæðisverkum þínum og hórdómi minntist þú ekki bernskudaga þinna þegar þú varst nakin og klæðlaus og spriklaðir í blóði þínu. 23 Eftir öll þessi illvirki, vei, vei þér, segir Drottinn Guð, 24 reistir þú stall og gerðir þér fórnarhæð við hvert torg 25 og fórnarhæðir við hvert götuhorn. Þú afskræmdir fegurð þína og glenntir sundur fætur þína fyrir hvern sem átti leið um. Þú jókst hórdóm þinn 26 og hóraðist með Egyptum, hinum hreðjamiklu nágrönnum þínum, og reittir mig til reiði með síauknum hórdómi þínum.
27 Þá rétti ég út hönd mína gegn þér og sneiddi nokkuð af réttmætri eign þinni. Síðan ofurseldi ég þig græðgi dætra Filistea sem hötuðu þig og sem hneykslast höfðu á skækjulíferni þínu. 28 Þú hóraðist einnig með Assýríumönnum þar sem þú hafðir ekki fengið nægju þína. Þú hóraðist með þeim, fékkst samt ekki nóg. 29 Þú jókst hórdóm þinn allt til Kaldeu, til lands kaupahéðnanna, en það varð þér ekki nóg. 30 Hve sóttheitt var hjarta þitt, segir Drottinn Guð, þegar þú gerðir allt þetta og breyttir eins og argasta hóra. 31 Þú reistir stall þinn við hvert götuhorn og gerðir þér fórnarhæð við hvert torg. En þú varst samt ekki eins og skækja þar sem þú forsmáðir skækjulaunin. 32 Kona, sem drýgir hór, tekur annan mann í stað eiginmanns síns. 33 Öllum skækjum er greitt gjald en þú gafst ástmönnum þínum gjafir, barst á þá fé svo að þeir kæmu til þín hvaðanæva til að hórast með þér. 34 Hórdómur þinn var með allt öðrum hætti en annarra kvenna því að ekki var leitað á þig til fylgilags, þú greiddir friðilslaun en þér voru ekki greidd skækjulaun. Þannig var atferli þitt gerólíkt atferli annarra.
35 Hlustaðu því, hóra, á úrskurð Drottins. 36 Svo segir Drottinn Guð: Þar sem þú hefur berað blygðun þína og svipt nekt þína klæðum þegar þú hóraðist með ástmönnum þínum og öllum þínum viðbjóðslegu skurðgoðum og þar sem þú úthellir blóði barna þinna handa þeim 37 safna ég nú saman öllum ástmönnum þínum, sem þú girntist, bæði þeim sem þú elskaðir og hinum sem þú hataðir. Ég safna þeim saman úr öllum áttum og bera blygðun þína fyrir þeim svo að þeir sjái þig í allri þinni nekt. 38 Því næst kveð ég upp dóm yfir þér samkvæmt ákvæðum um konur sem fremja hjúskaparbrot og morð. Ég mun gjalda þér með blóði, heift og afbrýði. 39 Þá sel ég þig friðlum þínum í hendur. Þeir munu brjóta niður stalla þína og rífa niður fórnarhæðir þínar, reyta af þér fötin, svipta þig dýrindis skarti þínu og skilja þig eftir nakta og klæðlausa. 40 Þeir munu einnig senda múg manna gegn þér sem mun grýta þig og höggva þig í sundur með sverðum sínum. 41 Þeir munu brenna hús þín og fullnægja refsidómum yfir þér í augsýn margra kvenna. Þannig bind ég enda á hórdóm þinn og þú munt ekki greiða friðilslaun framar.
42 Þegar ég hef svalað reiði minni á þér mun afbrýði mín hverfa. Ég mun hljóta frið og ekki reiðast framar. 43 Þar sem þú minntist ekki bernskudaga þinna og vaktir reiði mína með öllu þessu læt ég breytni þína koma þér í koll, segir Drottinn Guð. Hefurðu ekki framið aðra svívirðu ofan á önnur viðbjóðsleg verk þín?