Fiskidráttur Péturs

1 Nú bar svo til að Jesús stóð við Genesaretvatn og mannfjöldinn þrengdist að honum til að hlýða á Guðs orð. 2 Þá sá hann tvo báta við vatnið en fiskimennirnir voru farnir í land og þvoðu net sín. 3 Hann fór út í þann bátinn er Símon átti og bað hann að leggja lítið eitt frá landi, settist og tók að kenna mannfjöldanum úr bátnum.
4 Þegar hann hafði lokið ræðu sinni sagði hann við Símon: „Legg þú út á djúpið og leggið net ykkar til fiskjar.“
5 Símon svaraði: „Meistari, við höfum stritað í alla nótt og ekkert fengið en fyrst þú segir það skal ég leggja netin.“ 6 Nú gerðu þeir svo og fengu þeir þá mikinn fjölda fiska en net þeirra tóku að rifna. 7 Bentu þeir þá félögum sínum á hinum bátnum að koma og hjálpa sér. Þeir komu og hlóðu báða bátana svo að nær voru sokknir.
8 Þegar Símon Pétur sá þetta féll hann á kné frammi fyrir Jesú og sagði: „Far þú frá mér, Drottinn, því að ég er syndugur maður.“ 9 En felmtur kom á hann og alla þá sem með honum voru vegna fiskaflans er þeir höfðu fengið. 10 Eins var um Jakob og Jóhannes Sebedeussyni, félaga Símonar. Jesús sagði þá við Símon: „Óttast þú ekki, héðan í frá skalt þú menn veiða.“
11 Og þeir lögðu bátunum að landi, yfirgáfu allt og fylgdu honum.