1Sérlyndur maður fer að eigin geðþótta
og hafnar hverju hollráði.
2Heimskinginn keppir ekki að hyggindum
heldur að gera skoðanir sínar kunnar.
3Komi illmennið kemur háðungin einnig
og smáninni fylgir skömm.
4Djúp vötn eru orð af manns munni,
lind viskunnar er sem rennandi lækur.
5Það er ekki rétt að draga taum hins rangláta
og halla rétti hins saklausa í dómi.
6Orð heimskingjans valda deilum,
munnur hans býður höggunum heim.
7Munnur heimskingjans verður honum að falli
og varirnar eru lífi hans snara.
8Sæt eru orð rógberans,
þau ná til innstu fylgsna mannsins.
9Kærulaus verkmaður er albróðir niðurrifsmannsins.
10Nafn Drottins er sterkur turn,
þangað hleypur hinn réttláti og er óhultur.
11Auður ríks manns er honum öflugt vígi
og ókleifur múrveggur að hans hyggju.
12Dramb hjartans er undanfari falls,
hógværð er undanfari sæmdar.
13Svari einhver áður en hann hlustar
er það heimska hans og skömm.
14Kjarkur styrkir menn í sjúkleika
en hver fær borið dapurt geð?