Til að þjóna og gefa
20 Þá kom móðir þeirra Sebedeussona til Jesú með sonum sínum, laut honum og vildi biðja hann bónar.
21 Jesús spyr hana: „Hvað viltu?“
Hún segir: „Lát þú þessa tvo syni mína sitja þér við hlið í ríki þínu hvorn til sinnar handar, annan til hægri handar þér og hinn til vinstri.“
22 Jesús svarar: „Þið vitið ekki hvers þið biðjið. Getið þið drukkið þann kaleik sem ég á að drekka?“
Þeir segja við hann: „Það getum við.“
23 Hann segir við þá: „Kaleik minn munuð þið drekka en ég ræð því ekki hver situr mér til hægri handar eða vinstri. Það veitist þeim sem faðir minn hefur ákveðið.“
24 Þegar hinir tíu heyrðu þetta gramdist þeim við bræðurna tvo.
25 En Jesús kallaði þá til sín og mælti: „Þið vitið að þeir sem ráða fyrir þjóðum drottna yfir þeim og höfðingjar láta menn kenna á valdi sínu. 26 En eigi sé svo meðal ykkar heldur sé sá sem mikill vill verða meðal ykkar þjónn ykkar. 27 Og sá sem vill fremstur vera meðal ykkar sé þræll ykkar. 28 Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir alla.“
Snart augu þeirra
29 Þegar þeir fóru frá Jeríkó fylgdi mikill mannfjöldi Jesú. 30 Tveir menn blindir sátu þar við veginn. Þegar þeir heyrðu að þar færi Jesús hrópuðu þeir: „Drottinn, miskunna þú okkur, sonur Davíðs!“ 31 Fólkið hastaði á þá að þeir þegðu en þeir hrópuðu því meir: „Drottinn, miskunna þú okkur, sonur Davíðs!“
32 Jesús nam staðar, kallaði á þá og sagði: „Hvað viljið þið að ég geri fyrir ykkur?“
33 Þeir mæltu: „Drottinn, gefðu okkur sjón.“
34 Jesús kenndi í brjósti um þá og snart augu þeirra. Jafnskjótt fengu þeir sjónina og fylgdu honum.