Vildu freista hans
1 Þá komu farísear og saddúkear, vildu freista Jesú og báðu hann að sýna sér tákn af himni. 2 Jesús svaraði þeim: „Að kvöldi segið þið: Það verður góðviðri því að roði er á lofti. 3 Og að morgni: Illviðri í dag, himinninn er rauður og þungbúinn. Útlit loftsins kunnið þið að ráða en ekki tákn tímanna.[ 4 Vond og ótrú kynslóð heimtar tákn en eigi verður henni annað tákn gefið en tákn Jónasar.“
Síðan skildi hann við þá og fór.
Varasamt súrdeig
5 Þegar lærisveinarnir fóru yfir um vatnið höfðu þeir gleymt að taka með sér brauð. 6 Jesús sagði við þá: „Gætið ykkar, varist súrdeig farísea og saddúkea.“
7 En lærisveinarnir ræddu sín á milli að þeir hefðu ekki tekið brauð.
8 Jesús varð þess vís og sagði: „Hvað eruð þið að tala um það, trúlitlir menn, að þið hafið ekki brauð? 9Skynjið þið ekki enn? Minnist þið ekki brauðanna fimm handa fimm þúsundum og hve margar körfur þið tókuð saman? 10 Eða brauðanna sjö handa fjórum þúsundum og hve margar körfur þið tókuð saman? 11Hvernig má það vera að þið skynjið ekki að ég var ekki að tala um brauð við ykkur? Varist súrdeig farísea og saddúkea.“
12 Þá skildu þeir að hann hafði ekki talað um að varast súrdeig í brauði heldur kenningu farísea og saddúkea.