Jesús skýrir

36 Þá skildi Jesús við mannfjöldann og fór inn. Lærisveinar hans komu til hans og sögðu: „Skýrðu fyrir okkur dæmisöguna um illgresið á akrinum.“
37 Hann mælti: „Sá er sáir góða sæðinu er Mannssonurinn, 38 akurinn er heimurinn, góða sæðið merkir börn ríkisins en illgresið börn hins vonda. 39 Óvinurinn, sem sáði því, er djöfullinn. Kornskurðurinn er endir veraldar og kornskurðarmennirnir englar. 40 Eins og illgresinu er safnað og brennt í eldi, þannig verður við endi veraldar. 41 Mannssonurinn mun senda engla sína og þeir munu nema brott úr ríki hans allt sem leiðir í villu og alla er illt fremja 42 og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna. 43 Þá munu þau sem hlýtt hafa Guði skína sem sól í ríki föður þeirra.
Hver sem eyru hefur hann heyri.“

Líkt fjársjóði, perlu, neti

44 Enn sagði Jesús: „Líkt er himnaríki fjársjóði sem fólginn var í jörðu og maður fann og leyndi. Í fögnuði sínum fór hann, seldi allar eigur sínar og keypti akur þann.
45 Enn er himnaríki líkt kaupmanni sem leitaði að fögrum perlum. 46 Og er hann fann eina dýrmæta perlu fór hann, seldi allt sem hann átti og keypti hana.
47 Enn er himnaríki líkt neti sem lagt er í sjó og safnar alls kyns fiski. 48 Þegar það er fullt draga menn það á land, setjast við og safna þeim góðu í ker en kasta þeim óætu burt. 49 Svo mun verða þegar veröld endar: Englarnir munu koma, skilja vonda menn frá réttlátum 50 og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna.
51 Hafið þið skilið allt þetta?“
„Já,“ svöruðu lærisveinarnir.
52 Jesús sagði við þá: „Þannig er sérhver fræðimaður sem orðinn er lærisveinn himnaríkis líkur húsföður sem ber fram nýtt og gamalt úr forðabúri sínu.“