Illgresi sáð

24 Aðra dæmisögu sagði Jesús þeim: „Líkt er um himnaríki og mann er sáði góðu sæði í akur sinn. 25 En er menn voru í svefni kom óvinur hans, sáði illgresi meðal hveitisins og fór síðan. 26 Þegar sæðið spratt upp og tók að bera ávöxt kom illgresið og í ljós. 27 Þá komu þjónar húsbóndans til hans og sögðu við hann: Herra, sáðir þú ekki góðu sæði í akur þinn? Hvaðan kemur illgresið? 28 Hann svaraði þeim: Þetta hefur einhver óvinur gert. Þjónarnir sögðu við hann: Viltu að við förum og reytum það? 29 Hann sagði: Nei, með því að tína illgresið gætuð þið slitið upp hveitið um leið. 30 Látið hvort tveggja vaxa saman fram að kornskurði. Þegar komin er kornskurðartíð mun ég segja við kornskurðarmenn: Safnið fyrst illgresinu og bindið í bundin til að brenna því en hirðið hveitið í hlöðu mína.“

Líkt mustarðskorni

31 Aðra dæmisögu sagði Jesús þeim: „Líkt er himnaríki mustarðskorni sem maður tók og sáði í akur sinn. 32 Smæst er það allra sáðkorna en nær það vex er það öllum jurtum meira, það verður tré, og fuglar himins koma og hreiðra sig í greinum þess.“

Líkt súrdeigi

33 Aðra dæmisögu sagði Jesús þeim: „Líkt er himnaríki súrdeigi er kona tók og fól í þrem mælum mjöls uns það sýrðist allt.“
34 Þetta allt talaði Jesús í dæmisögum til fólksins og án dæmisagna talaði hann ekki til þess. 35 Það átti að rætast sem Guð lét spámanninn segja:
Ég mun tala í dæmisögum
og boða það sem hulið var frá sköpun heims.