Af ávextinum þekkist tréð

33 Annaðhvort er tréð gott og ávöxturinn góður eða tréð vont og ávöxturinn vondur. Því af ávextinum þekkist tréð. 34 Þér nöðrukyn, hvernig getið þér, sem eruð vond, talað gott? Af gnægð hjartans mælir munnurinn. 35 Góður maður ber gott fram úr góðum sjóði en vondur maður ber vont fram úr vondum sjóði.
36 En ég segi yður: Á dómsdegi munu menn verða að svara fyrir hvert ónytjuorð sem þeir mæla. 37 Því af orðum þínum muntu sýknaður og af orðum þínum muntu sakfelldur verða.“

Tákn

38 Þá sögðu nokkrir fræðimenn og farísear við Jesú: „Meistari, við viljum sjá þig gera tákn.“
39 Jesús svaraði þeim: „Vond og ótrú kynslóð heimtar tákn en eigi verður henni annað tákn gefið en tákn Jónasar spámanns. 40 Jónas var í kviði stórhvelisins þrjá daga og þrjár nætur og eins mun Mannssonurinn vera þrjá daga og þrjár nætur í skauti jarðar. 41 Nínívemenn munu koma fram í dóminum ásamt kynslóð þessari og sakfella hana því að þeir tóku sinnaskiptum við prédikun Jónasar og hér er meira en Jónas. 42Drottning Suðurlanda mun rísa upp í dóminum ásamt þessari kynslóð og sakfella hana því að hún kom frá endimörkum jarðar að heyra speki Salómons og hér er meira en Salómon.“

Verra hlutskipti

43 Enn sagði Jesús: „Þegar óhreinn andi fer út af manni reikar hann um eyðihrjóstur og leitar hælis en finnur ekki. 44 Þá segir hann: Ég vil hverfa aftur í hús mitt þaðan sem ég fór. Og er hann kemur og finnur það tómt, sópað og prýtt 45 fer hann og tekur með sér sjö aðra anda sér verri og þeir fara inn og setjast þar að og verður svo hlutskipti þess manns verra eftir en áður. Eins mun fara fyrir þessari vondu kynslóð.“

Móðir og bræður

46 Meðan Jesús var enn að tala við fólkið komu móðir hans og bræður. Þau stóðu úti og vildu tala við hann. 47 Einhver sagði við hann: „Móðir þín og bræður standa hér úti og vilja tala við þig.“[
48 Jesús svaraði þeim er við hann mælti: „Hver er móðir mín og hverjir eru bræður mínir?“ 49 Og hann rétti út höndina yfir lærisveina sína og sagði: „Hér er móðir mín og bræður mínir. 50 Hver sem gerir vilja föður míns sem er á himnum, sá er bróðir minn, systir og móðir.“