1Drottinn, Guð hefndarinnar, [
Guð hefndarinnar, birst þú í ljóma.
2Rís þú upp, dómari jarðar,
endurgjald drembilátum breytni þeirra.
3Hve lengi, Drottinn, mega guðlausir,
hve lengi mega guðlausir fagna?
4Þeir ausa úr sér stóryrðum,
allir illvirkjar hreykja sér.
5Þeir kremja lýð þinn, Drottinn,
kúga arfleifð þína,
6drepa ekkjur og aðkomandi
og myrða munaðarlausa.
7Þeir segja: „Drottinn sér þetta ekki,
Guð Jakobs tekur ekki eftir því.“
8Takið eftir, þér hinir skilningslausu meðal lýðsins
og vitgrönnu, hvenær ætlið þér að vitkast?
9Mun sá eigi heyra sem eyranu hefur plantað
og sá eigi sjá sem augað hefur til búið?
10Skyldi sá ekki hegna sem agar þjóðirnar,
hann, sem kennir manninum visku?
11Drottinn þekkir hugsanir manna,
veit að þær eru vindgustur einn.
12Sæll er sá maður er þú agar, Drottinn,
og fræðir með lögmáli þínu
13svo að hann njóti friðar á erfiðum dögum
uns hinum óguðlega verður grafin gröf.
14Drottinn mun ekki hafna lýð sínum,
hann mun ekki yfirgefa arfleifð sína.
15Réttlætið mun aftur ríkja í réttarfari
og allir hjartahreinir munu lúta því.