18 Þennan sama dag gekk Gað fyrir Davíð og sagði: „Farðu upp eftir og reistu Drottni altari á þreskivelli Jebúsítans Aravna.“ 19 Davíð gekk þá upp eftir eins og Gað hafði boðið að fyrirmælum Drottins.
20 Þegar Aravna varð litið út sá hann konunginn og menn hans koma í áttina til sín. Aravna gekk þá út og féll fram á ásjónu sína frammi fyrir konungi 21 og spurði: „Hvers vegna ert þú, herra minn og konungur, kominn til þræls þíns?“ Davíð svaraði: „Til þess að kaupa af þér þreskivöllinn og reisa Drottni altari svo að linni drepsóttinni sem þjakar þjóðina.“ 22 Aravna svaraði Davíð: „Herra minn og konungur taki það sem honum þóknast og færi að fórn. Nautin hérna eru brennifórnir en þreskisleðarnir og klafar nautanna eldiviðurinn.“
23 Aravna gaf konunginum þetta allt og sagði: „Drottinn, Guð þinn, sé þér náðugur.“
24 Konungurinn svaraði Aravna: „Nei, ég vil kaupa það af þér fullu verði. Ég get ekki fært Drottni, Guði mínum, brennifórn sem ég hef ekki greitt.“
Því næst keypti Davíð þreskivöllinn og nautin fyrir fimmtíu sikla silfurs. 25 Þarna reisti Davíð Drottni altari og færði brennifórn og heillafórn. Þá sættist Drottinn við landið og plágunni létti af Ísrael.