Manntalið og plágan

1 Enn einu sinni blossaði reiði Drottins upp gegn Ísraelsmönnum. Hann espaði Davíð gegn þeim og skipaði: „Farðu og teldu Ísraelsmenn og Júdamenn.“
2 Konungur sagði við Jóab og foringja hersins sem með honum voru: „Farið um alla ættbálka Ísraels frá Dan til Beerseba. Teljið alla vopnfæra menn svo að ég viti fjölda þeirra.“
3 Þá sagði Jóab við konung: „Drottinn, Guð þinn, fjölgi þjóðinni hundraðfalt frá því sem nú er. Megir þú, herra minn og konungur, sjá það með eigin augum. En hvers vegna vill herra minn og konungur gera þetta?“ 4 Skipun konungs mátti sín meira en skoðun Jóabs og foringja hersins. Jóab og foringjar hersins héldu því af stað frá konungi til þess að telja Ísraelsmenn. 5 Þeir fóru nú yfir Jórdan og byrjuðu við Aróer, sunnan við borgina sem er í miðjum dalnum. Því næst héldu þeir í áttina til Gað og Jaser 6 og áfram til Gíleað og inn í land Hetítanna til Kades. Þaðan fóru þeir til Dan og frá Dan sneru þeir til Sídon. 7 Þá komu þeir til hinnar víggirtu borgar Týrus og til allra borga Hevíta og Kanaaníta og áfram til Beerseba í Suðurlandi í Júda. 8 Þegar þeir höfðu farið um allt landið komu þeir aftur til Jerúsalem eftir níu mánuði og tuttugu daga.
9 Jóab tilkynnti konungi niðurstöðu manntalsins: Í Ísrael voru átta hundruð þúsund vopnfærir menn sem gátu brugðið sverði en í Júda voru fimm hundruð þúsund.

Musterinu valinn staður

10 En samviskan sló Davíð þegar hann hafði talið þjóðina. Hann sagði því við Drottin: „Ég hef brotið alvarlega af mér með því sem ég gerði. Drottinn, fyrirgefðu nú þræli þínum því að ég hef farið heimskulega að ráði mínu.“
11 Þegar Davíð fór á fætur morguninn eftir hafði orð borist frá Drottni til Gaðs spámanns, sjáanda Davíðs: 12 „Farðu og segðu við Davíð. Svo segir Drottinn: Ég set þér þrjá kosti. Veldu einn þeirra og ég mun láta það yfir þig ganga.“
13 Því næst gekk Gað fyrir Davíð, tilkynnti honum þetta og spurði: „Hvað viltu kalla yfir þig? Viltu hungursneyð í landinu í þrjú ár, viltu vera þrjá mánuði á flótta undan óvinum þínum, sem ofsækja þig, eða viltu að drepsótt geisi þrjá daga í landi þínu? Íhugaðu nú vel hvaða svar ég á að færa þeim sem sendi mig.“
14 Davíð svaraði Gað: „Nú er úr vöndu að ráða. Helst vil ég falla í hendur Drottins, því að mikil er miskunn hans, en í hendur manna vil ég ekki falla.“
15 Þá sendi Drottinn drepsótt yfir Ísrael. Hún geisaði frá því árla daginn eftir í tiltekinn tíma. Af þjóðinni féllu sjötíu þúsund manns frá Dan til Beerseba. 16 Þegar engillinn rétti út hönd sína gegn Jerúsalem til þess að eyða borgina iðraðist Drottinn hins illa og sagði við engilinn sem eyddi fólkinu: „Nú er nóg komið. Dragðu að þér höndina.“ Engill Drottins var þá við þreskivöll Jebúsítans Aravna. 17 Þegar Davíð sá engilinn deyða fólkið sagði hann við Drottin: „Það er ég sem hef syndgað, það er ég sem hef brotið af mér. En hvað hefur þessi hjörð hérna gert? Refsaðu mér og fjölskyldu minni.“