Þakkarsálmur Davíðs
1 Davíð flutti Drottni þetta ljóð[ þegar hann hafði bjargað Davíð úr greipum allra fjandmanna hans og úr greipum Sáls. Hann sagði:
2Drottinn, bjarg mitt og vígi, frelsari minn.
3Guð minn, hellubjarg mitt þar sem ég leita hælis,
skjöldur minn og horn hjálpræðis míns,
háborg mín og hæli,
frelsari minn sem bjargar mér undan ofríki.
4Lofaður sé Drottinn, hrópa ég
og bjargast frá fjandmönnum mínum.
5Holskeflur dauðans umluktu mig,
eyðandi fljót skelfdu mig.
6Bönd heljar herptust að mér,
snörur dauðans ógnuðu mér.
7Í angist minni kallaði ég á Drottin,
til Guðs míns hrópaði ég.
Hann heyrði hróp mitt í helgidómi sínum,
óp mitt barst honum til eyrna.
8Þá skalf jörðin og nötraði,
undirstöður himinsins skulfu,
þær nötruðu því að hann var reiður.
9Reyk lagði úr nösum hans,
eyðandi eld úr munni hans,
eldslogar gengu út frá honum.
10Hann sveigði himininn og steig niður
og skýsorti var undir fótum hans.
11Hann steig á bak kerúb og flaug af stað,
hann birtist á vængjum vindsins.
12Hann sveipaði sig myrkri,
regnskýjum og skýsorta eins og tjaldi.
13Úr ljóma hans hrutu eldneistar.
14Þá þrumaði Drottinn af himni,
Hinn hæsti lét raust sína gjalla.
15Hann skaut örvum á víð og dreif,
slöngvaði eldingum og tvístraði þeim.
16Þá sá í mararbotn,
undirstöður jarðar birtust
vegna ógnandi heiftar Drottins
og blástursins úr nösum hans.
17Hann rétti hönd sína af himni og greip mig,
dró mig upp úr þessu fimbulvatni, [
18bjargaði mér undan hinum öfluga fjandmanni,
undan hatursmönnum mínum
sem voru mér máttugri.
19Þeir réðust gegn mér á óheilladegi mínum
en Drottinn reyndist mér stoð.
20Hann leiddi mig út á víðavang,
leysti mig úr áþján því að hann hefur mætur á mér.
21Drottinn launaði mér réttlæti mitt,
endurgalt mér hreinleika handa minna
22 því að ég vék ekki af vegi Drottins
og brást ekki Guði mínum.
23 Af því að öll boð hans voru mér fyrir augum
og ég hafnaði ekki lögum hans
24 var ég flekklaus frammi fyrir honum.
Ég varaðist að syndga,
25 þess vegna launaði Drottinn mér réttlæti mitt
því að ég er hreinn í augum hans.