20. kafli

Embættismenn Davíðs

23 Jóab var hershöfðingi yfir öllum Ísraelsher og Benaja Jójadason var fyrir Kretum og Pletum. 24Adóníram var yfirmaður kvaðavinnunnar og Jósafat Ahílúðsson var kallari konungs. 25 Seja var ríkisritari og Sadók og Abjatar voru prestar. Íra af ætt Jaírs var einnig prestur Davíðs.

21. kafli

Niðjar Sáls teknir af lífi

1 Í stjórnartíð Davíðs varð einu sinni hungursneyð í þrjú ár samfleytt. Þá leitaði Davíð til Drottins og Drottinn sagði: „Blóðsök hvílir á Sál og fjölskyldu hans af því að hann drap Gíbeonítana.“ 2 Gíbeonítar voru ekki komnir af Ísraelsmönnum heldur af leifum Amoríta. Ísraelsmenn höfðu unnið þeim eið en samt leitaðist Sál við að tortíma þeim í ofurkappi sínu vegna Ísraelsmanna og Júdamanna. 3 Davíð kallaði nú Gíbeonítana til sín og sagði: „Hvað get ég gert fyrir ykkur? Með hverju get ég gert yfirbót svo að þið getið blessað þjóðina sem Drottinn á?“ 4 Gíbeonítarnir svöruðu: „Við krefjumst hvorki gulls né silfurs af Sál og fjölskyldu hans og við höfum ekki rétt til að láta taka neinn af lífi í Ísrael.“
Davíð spurði: „Hvað á ég að gera fyrir ykkur?“
5/6 Þá sögðu þeir við konunginn: „Framseldu okkur sjö niðja þess manns sem ætlaði að tortíma okkur og hafði ákveðið að afmá okkur svo að enginn okkar yrði eftir í landi Ísraels. Við ætlum að taka þá af lífi handa Drottni í Gíbea, borg Sáls, hins útvalda Drottins.“ Konungurinn svaraði: „Ég skal selja ykkur þá í hendur.“
7 En konungur þyrmdi Mefíbóset Jónatanssyni Sálssonar vegna þess eiðs sem Davíð og Jónatan, sonur Sáls, höfðu svarið hvor öðrum við nafn Drottins. 8 Konungurinn sótti báða syni Rispu Ajasdóttur, sem hún hafði átt með Sál, þá Armóní og Mefíbóset, og fimm syni Merab, dóttur Sáls, sem hún hafði átt með Adríel Barsillaísyni frá Mehóla. 9 Hann framseldi þá síðan í hendur Gíbeoníta og þeir tóku þá af lífi á fjallinu fyrir augliti Drottins. Þannig dóu þeir allir sjö í einu. Þeir voru teknir af lífi á fyrstu dögum uppskerunnar við upphaf byggskurðarins.