13 Eftir að hann hafði komið Amasa af veginum héldu allir áfram með Jóab til að veita Seba Bíkrísyni eftirför. 14 Hann hafði farið til allra ættbálka Ísraels og var nú kominn til Abel Bet Maaka. Allir ættmenn Bíkrí höfðu safnast saman og fylgt honum.
15 Nú komu menn Jóabs, umkringdu Seba Bíkríson í borginni Abel Met Maaka og hlóðu vegg að borgarmúrnum. Allt lið Jóabs hófst síðan handa við að brjóta niður borgarmúrinn. 16 Þá hrópaði skynsöm kona úr borginni: „Hlustið, hlustið. Segið við Jóab: Komdu, mig langar til að tala við þig.“ 17 Hann gekk þá til konunnar og hún spurði: „Ert þú Jóab?“ Hann játaði því. Þá sagði hún við hann: „Hlustaðu á orð ambáttar þinnar.“ Hann svaraði: „Ég hlusta.“ 18 Þá sagði hún: „Áður fyrr var þetta haft að orðtaki: Spyrðu í Abel og málið er útkljáð. 19 Við erum friðsamasta og traustasta fólkið í Ísrael en þú ætlar að leggja þá borg í rúst sem er móðir í Ísrael. Hvers vegna ætlar þú að eyða arfleifð Drottins?“ 20 Jóab svaraði: „Það er víðs fjarri mér. Ég ætla hvorki að eyða né brjóta, 21 alls ekki. En maður nokkur frá Efraímsfjalli, Seba Bíkríson að nafni, hefur lyft hendi sinni gegn Davíð konungi. Framseljið hann einan og þá mun ég hverfa frá borginni.“ Konan svaraði Jóab: „Taktu eftir, höfði hans verður fleygt til þín yfir borgarmúrinn.“
22 Síðan talaði konan við alla borgarbúa. Þeir létu hálshöggva Seba Bíkríson og fleygðu höfðinu til Jóabs. Því næst lét hann þeyta hafurshornið og héldu þá allir frá borginni, dreifðust og fór hver til síns tjalds. Jóab hélt aftur til Jerúsalem til konungsins.