Davíð snýr aftur
Eftir að Ísraelsmenn voru flúnir til tjalda sinna 10 tók fólk í öllum ættbálkum Ísraels að kvarta og sagði: „Konungurinn bjargaði okkur úr greipum fjandmanna okkar og hann bjargaði okkur úr greipum Filistea. Nú hefur hann sjálfur þurft að flýja land undan Absalon 11 en Absalon, sem við smurðum til konungs yfir okkur, er fallinn í stríðinu. Hvers vegna hikið þið þá við að sækja konunginn aftur nú þegar?“
12 Konungi barst nú orðrómur um þessa afstöðu Ísraelsmanna. Þá sendi Davíð konungur boð til prestanna Sadóks og Abjatars: „Segið við öldunga Júda: Ætlið þið að verða síðastir til að flytja konunginn heim aftur? 13 Þið eruð ættmenn mínir, þið eruð bein mín og hold. Ætlið þið að verða síðastir til að sækja konunginn? 14 Og þið skuluð segja við Amasa: Ert þú ekki hold mitt og bein? Guð láti mig gjalda þess nú og síðar ef þú verður ekki ævinlega hershöfðingi hjá mér í stað Jóabs.“ 15 Þannig vann Davíð hjörtu allra Júdamanna svo að þeir studdu hann allir sem einn og sendu konungi þessi boð: „Snúðu heim aftur ásamt öllum þjónum þínum.“
Davíð sættist við Símeí og Mefíbóset
16 Konungur hélt þá heim á leið. Þegar hann kom að Jórdan voru Júdamenn komnir til Gilgal til móts við konung til að fylgja honum yfir Jórdan.
17 Símeí Gerason, sem var af ættbálki Benjamíns frá Bahúrím, flýtti sér ásamt Júdamönnum niður eftir til móts við Davíð konung. 18 Þúsund manns af ættbálki Benjamíns voru með honum. Síba, þjónn fjölskyldu Sáls, var ásamt fimmtán sonum sínum og tuttugu þjónum kominn að Jórdan á undan konungi. 19 Þeir höfðu farið yfir á vaðinu til að flytja fjölskyldu konungs yfir og uppfylla óskir hans.
Þegar konungur var að leggja af stað yfir Jórdan varpaði Símeí Gerason sér niður frammi fyrir honum 20 og sagði við hann: „Herra minn, sakfelldu mig ekki vegna afbrots míns. Gleymdu því sem ég, þræll þinn, braut af mér daginn sem þú, herra minn og konungur, fórst burt úr Jerúsalem. Erfðu það ekki við mig. 21 Ég, sem er þræll þinn, viðurkenni að hafa brotið af mér. En ég er sá af ætt Jósefs sem kemur fyrstur hingað niður eftir til móts við þig, herra minn og konungur.“
22 Þá spurði Abísaí Serújuson: „Á ekki að drepa Símeí fyrir að formæla Drottins smurða?“
23 En Davíð sagði: „Gætið að sjálfum ykkur, Serújusynir. Ætlið þið nú að gerast andstæðingar mínir? Verður einhver líflátinn í Ísrael í dag? Svo mikið veit ég að það er ég sem er konungur í Ísrael.“ 24 Því næst sagði konungur við Símeí: „Þú skalt ekki deyja.“ Síðan staðfesti konungur þetta með eiði.