Davíð kemst undan
15 Húsaí sagði nú við prestana Sadók og Abjatar: „Akítófel lagði eitt til við Absalon en ég annað. 16 Sendið nú þegar í stað mann til Davíðs með þessi skilaboð: Í nótt skaltu ekki láta fyrirberast við vöðin yfir til eyðimerkurinnar, farðu heldur þegar í stað yfir um svo að þú, herra konungur, verðir ekki gersigraður ásamt öllum hernum sem með þér er.“
17 Jónatan og Akímaas biðu við Rógellind. Þjónustustúlka nokkur gekk þá til þeirra og flutti þeim skilaboðin og þeir fóru með þau til Davíðs konungs. Þeir máttu ekki láta sjá sig og gátu því ekki farið inn í borgina. 18 Samt kom unglingur nokkur auga á þá og sagði Absalon frá því. En þeir Jónatan og Akímaas flýttu sér báðir á brott og fóru heim til manns nokkurs í Bahúrím. Í húsagarði hans var brunnur sem þeir fóru ofan í. 19 Húsfreyjan sótti teppi, breiddi það yfir brunnopið og stráði síðan korni yfir svo að ekkert grunsamlegt sást.
20 Þegar þjónar Absalons komu inn í húsið til konunnar spurðu þeir: „Hvar eru Akímaas og Jónatan?“ Hún svaraði: „Þeir fóru í áttina að vatninu.“ Þjónarnir leituðu án þess að finna þá og sneru aftur til Jerúsalem.
21 Þegar þeir voru farnir komu báðir mennirnir upp úr brunninum. Þeir fóru síðan til Davíðs konungs, fluttu honum skilaboðin og sögðu einnig við hann: „Farið og flýtið ykkur yfir ána því að Akítófel hefur lagt á ráðin gegn ykkur.“ 22Þá hélt Davíð af stað ásamt öllum hernum, sem með honum var, og fór yfir Jórdan. Þegar lýsti af degi voru allir komnir yfir Jórdan og var enginn eftir.
23 Þegar Akítófel komst að raun um að ráði hans hafði ekki verið fylgt lagði hann á asna sinn og hélt til heimaborgar sinnar. Þar ráðstafaði hann eigum sínum. Síðan hengdi hann sig og lét þannig lífið. Hann var grafinn í gröf föður síns.
24 Þegar Davíð kom til Mahanaím var Absalon kominn yfir Jórdan ásamt öllum Ísraelsher. 25 Absalon hafði gert Amasa að yfirhershöfðingja í staðinn fyrir Jóab. Amasa var sonur Ítra frá Ísmael og Abígal. Hún var Nahasdóttir, systir Serúju, móður Jóabs. 26 Ísraelsmenn og Absalon settu upp búðir sínar í Gíleað.
27 Um leið og Davíð kom til Mahanaím komu Sóbí Nahasson frá Rabba í Ammón og Makír Ammíelsson frá Lódebar og Gíleaðítinn Barsillaí frá Rógelím til Davíðs. 28 Þeir færðu Davíð og hernum, sem var með honum, dýnur og ábreiður, skálar og leirker og enn fremur hveiti, bygg, mjöl og ristað korn, ertur og linsubaunir, 29 hunang og súrmjólk, fénað og ost. Þeir hugsuðu með sér: „Hermennirnir eru svangir, þyrstir og uppgefnir eftir dvölina í eyðimörkinni.“