Davíð og Síba
1 Þegar Davíð var kominn spölkorn frá fjallstindinum kom Síba, þjónn Mefíbósets, á móti honum. Hann hafði með sér tvo söðlaða asna sem voru klyfjaðir tvö hundruð brauðum, hundrað rúsínukökum, hundrað ferskum ávöxtum og vínbelg. 2 Konungurinn spurði Síba: „Hvað ætlarðu að gera við þetta?“ Síba svaraði: „Asnarnir eru reiðskjótar konungsfjölskyldunnar, brauðið og ávextirnir eru matur handa þjónum þínum og vínið er til drykkjar handa þeim sem þreytast í eyðimörkinni.“ 3 Þá spurði konungur: „Hvar er sonur húsbónda þíns?“ Síba svaraði: „Hann heldur kyrru fyrir í Jerúsalem því að hann hefur sagt: Nú munu Ísraelsmenn fá mér konungdóm föður míns.“ 4 Þá sagði konungur við Síba: „Hér með átt þú allt sem Mefíbóset átti.“ Síba svaraði: „Ég fell fram fyrir þér í lotningu. Megi ég reynast verðugur náðar þinnar.“
Símeí formælir Davíð
5 Þegar Davíð konungur kom til Bahúrím kom maður nokkur skyndilega út úr borginni. Hann var af sama ættbálki og fjölskylda Sáls og hét Símeí Gerason. Um leið og hann kom út úr borginni formælti hann Davíð 6 og kastaði grjóti í hann og menn hans enda þótt herinn og úrvalsliðið væru umhverfis konunginn. 7 Símeí formælti Davíð með þessum orðum: „Farðu burt, morðingi og fúlmenni. 8 Nú hefur Drottinn launað þér það blóð sem þú úthelltir í ætt Sáls. Þú varðst konungur eftir hann en nú hefur Drottinn selt konungdæmið í hendur Absalon, syni þínum. Nú er ógæfan komin yfir þig því að þú ert morðingi.“
9 Þá sagði Abísaí Serújuson við konunginn: „Hvers vegna fær þessi dauði hundur að bölva herra mínum, konunginum? Ég skal fara og gera hann höfðinu styttri.“ 10 Konungurinn svaraði: „Gætið að sjálfum ykkur, þið Serújusynir. Ef hann formælir og Drottinn hefur sagt við hann: Formæltu Davíð, hver getur þá spurt: Hvers vegna gerir þú þetta?“ 11 Og enn fremur sagði Davíð við Abísaí og alla þjóna sína: „Hvernig er hægt að búast við öðru af þessum Benjamíníta þegar jafnvel sonur minn, hold mitt og blóð,[ sækist eftir lífi mínu. Látið hann formæla. Drottinn hefur sjálfsagt skipað honum það. 12 Ef til vill sér Drottinn eymd mína og veitir mér heill í staðinn fyrir formælingar hans í dag.“
13 Davíð hélt síðan leiðar sinnar ásamt mönnum sínum en Símeí fylgdi honum í fjallshlíðinni á hlið við hann, formælti honum stöðugt og kastaði grjóti og mold á eftir honum. 14 Þegar komið var til Jórdanar voru allir þreyttir, konungur og allur her hans, og hvíldust þeir þar.