Hann gefur gaum að bæn hinna allslausu
og hafnar ekki bæn þeirra.

(Sálmur 102:18)

 

Biblían er full af fallegum ritningarstöðum sem hvetja til bænar. Erum við nógu dugleg að biðja? Eða, er kannski ekki rétt að spyrja þannig?

Látum þá vera dugnað og elju við bæn. En biðjum, biðjum oftar, biðjum heitar – biðjum og þökkum. Bænin er máttugt tæki, hún leysir þann sem biður og lagar þann, það eða þau, sem beðið er fyrir. Bænin líknar.

Bænin er okkur eiginleg, því lífið sjálft er bæn. Bæn um að fá að vera – eiga sér stað, lifa. Bænin er lofsöngur og bænin er eintal sálarinnar. Bænin er allt í senn hvísl hugans, birtingarmynd vonarinnar og hróp hjartans.

Biðjum fyrir vinum og vandamönnum, fyrir landinu okkar og samfélaginu sem við tilheyrum, gestum okkar – og okkur sjálfum. Biðjum fyrir þeim sem þjást hér heima og um víða veröld. Þökkum fyrir það sem er þakkarvert og sem hver og einn þekkir í hjarta sínu.

Biblían er óendanleg uppspretta fyrir þann sem biður í Jesú nafni. Biblían er fjársjóður orða, tákna, trúar og visku. Biblían er ekkert eitt – hún er margar bækur sem hafa að geyma margar sögur.

Skoðaðu Biblíuna. Gefðu henni tækifæri.

 

Trúarbænin mun gera hinn sjúka heilan og Drottinn mun reisa hann á fætur. Þær syndir, sem hann kann að hafa drýgt, verða honum fyrirgefnar. Játið því hvert fyrir öðru syndir ykkar og biðjið hvert fyrir öðru til þess að þið verðið heilbrigð. Kröftug bæn réttláts manns megnar mikið.

(Jakobsbréfið 5:15-16)

 

Guðmundur S. Brynjólfsson