Nú er málað yfir slagorð ÍSIS-hreyfingarinnar í Írak. Orðin „Jesús er ljós heimsins“ og „Guð er kærleikur“ blasa við okkur þegar við heimsækjum kristna bæinn Qaraqosh.

Hvernig ætli það sé að snúa aftur til eyðilagðra bæja og heimila? Með þessa spurningu í huga hélt ég til Níníve-sléttunnar í Írak. Mig fýsti að vita hvernig lífið horfir við því kristna fólki sem hefur snúið aftur eftir að ÍSIS var borið ofurliði.

Sú sjón sem mætti mér í bílferðinni frá Erbil var hörmuleg. Alls staðar var aðeins eyðileggingu að sjá. ÍSIS hefur brennt, rænt og eyðilagt næstum því öll hús og kirkjur. En eftir að kristni bærinn Qaraqosh fékk frelsi í ágúst 2017 hafa þrjú þúsund fjölskyldur snúið til baka og fjöldinn eykst dag frá degi.

Er ég gekk um göturnar gat að líta allt það sem ÍSIS hafði skrifað á hús og verslanir kristins fólks: „Þetta er ekki lengur kirkja, íslamska ríkið er við völd.“ Nú er búið að stroka út slagorðin og biblíuorð á borð við „Jesús er ljós heimsins“ og „Guð er kærleikur“ hafa komið í staðinn.

Al Taheri kirkjan var fyrrum stærsta og fegursta kirkjan í Írak. Nú baðst lítill hópur manna þar fyrir. Þeir höfðu nýlega snúið aftur frá Kúrdistan. Allir þeir sem trúaðir voru töluðu um þá hamingju sem þeir fundu fyrir þegar þeir komu aftur í kirkjuna sína. En eftir sem áður bera þeir ugg í brjósti fyrir framtíðinni í Írak.

 

Ihsan og Lara

Ihsan og Lara eru bæði frá Qaraqosh. Þau eru ung hjón. Þegar ÍSIS kom til bæjarins höfðu þau ekki um annað að velja en að flýja til Erbil. Þetta var þeim þungbært. Það hafði tekið þau sex ár að byggja sér hús og það hafði kostað þau fúlgur fjár, þrotlausa vinnu og gríðarmikla fyrirhöfn. Þau fengu aðeins að búa þar í tvö ár áður en þau þurftu að flýja.

Ég var með í för þegar þau sneru til baka og fann húsarústir þeirra. Rétt eins og annað kristið fólk var það fyrsta sem þau gerðu að mála yfir bókstafinn „n“ sem ÍSIS hafði skrifað á hurðina. Það stóð fyrir „Nasarear“[1] og benti til þess að um var að ræða kristið heimili og leyfilegt var að drepa það fólk sem þar bjó.

Mesta sorg Ihsans fólst í því að móðir hans lést á flóttanum, aðeins örfáum dögum eftir að þau lögðu af stað frá Qaraqosh. Hún lést í kirkju í Erbil þar sem þau bjuggu ásamt öðrum flóttafjölskyldum. Þremur árum síðar syrgir hann enn móðurina. Sú staðreynd að húsið er gjörónýtt er hjóm eitt miðað við móðurmissinn.

 

Tania

Á meðan þúsundir kristinna manna hafa snúið til baka, eru margir aðrir óttaslegnir. Þeir telja að framtíðin í Írak sé ótrygg. Ein þeirra er Tania, 25 ára að aldri, en hún bjó áður í Jórdaníu. Hún bíður eftir vegabréfsáritun til Ástralíu.

— Hræðslan við róttæku íslamistana var ógurleg. Föður mínum var rænt og hann var drepinn af róttækum múslímum. Innan við fjörutíu dögum síðar lést móðir mín einnig. Hún gat ekki afborið missinn og sársaukann. Þegar hið svokallaða íslamska ríki kom til sögunnar, flúðum við hvorki meira né minna en fjórum sinnum frá einum stað til annars. Ég get ekki leyft það að slíkt endurtaki sig. Ég vil að börnin mín búi á öruggum stað.

Hinir kristnu hafa ekki enn snúið aftur til Mósúl. Ástæða þess er ekki bara sú að þeir finna til óöryggis, en einnig hitt, að skemmdirnar í bænum eru ömurlegri en þú getur gert þér í hugarlund. Mósúl er algjörlega í rúst. Þar fyrir utan ríkir enn sem fyrr spenna á milli íraskra stjórnvalda og kúrdískra yfirvalda á þessu svæði.

Biblíufélagið í Erbil hjálpar mörgum, bæði beint og í gegnum kirkjurnar. Það gefur fjölskyldunum Biblíur og styður kirkjurnar með mánaðarlegum matarbögglum. En hinir kristnu í Erbil eru líkamlega og andlega örmagna eftir að hafa aðstoðað flóttafólk um langa hríð. Nú þarfnast þeir stuðnings okkar til þess að geta starfað áfram.

 

Lifandi steinar

ÍSIS hefur eyðilagt söguleg minnismerki frá Assyríu og lagt í rúst nærri tveggja aldatuga gamla krossa og myndir. En áhyggjur kirknanna snúa ekki að minnismerkjunum, heldur hinum lifandi steinum; manneskjunum.

Þær óttast að kristið fólk haldi áfram að yfirgefa landið. Allt frá árinu 2003, er Saddam Hussein var komið frá völdum, hafa hundruð þúsunda manna yfirgefið Írak. Allt frá því að vera um það bil tvær milljónir talsins árið 2003 telur Írak um það bil 300.000 íbúa í dag.

Eiga hinir kristnu að vera um kyrrt, til þess að tryggja það að kristin trú lifi af í Sýrlandi og Írak? Eða eiga þeir að flýja, til þess að skapa fjölskyldum sínum örugga framtíð? Þetta er sú umræða sem kristið fólk þar um slóðir stendur frammi fyrir.

 

 

Texti og myndir: Lina Musharbash.

Þorgils Hlynur Þorbergsson þýddi úr norsku á íslensku.

 

[1] Hallgrímur Pétursson hefði líklega talað um Naðverja, enda talaði hann nokkrum sinnum um „naðverskan“ mann í Passíusálmunum.