Að koma inn úr kuldanum

Úti var nístingskuldi. Það var þannig kuldi sem seytlar í gegnum skósólana en hleypir samt roða í kinnarnar. Við mynduðum úrvalshóp kristinna manna sem safnaðist saman í þeirri almennu þrá að hjálpa hinum þjáðu að leita huggunar, jafnvel gleði, með því að lesa Biblíuna. Þar sem ég stappaði snjóinn og klakann af skónum mínum leiddi ég hugann að öllum þeim áskorunum sem þessi fyrsti dagur þjálfunar okkar bæri í skauti sér. Í raun þekkti ég þetta fólk ekki vel, en samt var ég beðin um að deila minningum sem grafnar voru djúpt inni í hugskoti mínu. Nánd með ókunnugu fólki.

 

Sköpuð til tengsla

Tilfinningaleg nánd og gegnheil, sönn, opin tengsl eru mikilvægur hluti mennskunnar. Við sjáum slík tengsl er við flettum í Biblíunni, allt frá Adam og Evu í garðinum til Ljóðaljóða Salómons og Jesú í húsi Kanverjanna. Samverustundir með fólki sem við getum deilt lífi okkar með, gleði og sorg, andstreymi og sigurstundum, segja heilmikið um það hver við erum sem sköpunarverk Guðs.

Ég horfði á hjartnæmt viðtal fyrir nokkrum vikum á BBC, þar sem roskin kona á áttræðisaldri lýsti einsemdinni í lífi sínu, þar sem einu samskiptin sem hún átti var spjall um daginn og veginn við afgreiðslufólkið. Er hún leit inn í linsu myndavélarinnar sást glöggt hversu berskjölduð hún var; hún sagði að jafnvel þegar eitthvað gott gerðist í lífi hennar, með öðrum orðum eitthvað sem gladdi hjarta hennar, langaði hana til þess að deila þeirri stundu með annarri lifandi manneskju… en það var engin til staðar.

Þar sem við vorum sköpuð í mynd Guðs, vorum við sköpuð til samskipta við Guð og hvert við annað. Það fer illa með sálina, séu þau ekki til staðar. Rétt við blábyrjun Biblíunnar kannast Guð við það:

Og Drottinn Guð sagði: „Eigi er það gott að maðurinn sé einn. Ég vil gera honum meðhjálp við hans hæfi.“
Drottinn Guð mótaði nú öll dýr merkurinnar og alla fugla himinsins af moldu og lét þau koma fram fyrir manninn til þess að sjá hvað hann nefndi þau. Og hvert það heiti, sem maðurinn gæfi hinum lifandi skepnum, skyldu þær bera. Og maðurinn gaf öllu búfénu nafn ásamt fuglum loftsins og dýrum merkurinnar. En hann fann manninum enga meðhjálp við hæfi.
Þá lét Drottinn Guð djúpan svefn falla á manninn. Og er hann var sofnaður tók hann eitt af rifjum hans og setti hold í þess stað. Og Drottinn Guð myndaði konu af rifinu sem hann hafði tekið úr manninum og leiddi hana til mannsins.
Þá sagði maðurinn:
Loks er hér bein af mínum beinum
og hold af mínu holdi.
Hún skal kvenmaður kallast
af því að hún er af karlmanni tekin. 

(1Mós 2.18-23)

 

Loksins! Við skynjum út frá upphrópun karlmannsins að í konunni sem Guð sá honum fyrir finnur hann móteitrið gegn einangruninni. Það hefur alltaf vakið athygli mína að jafnvel þótt maðurinn hefði búið með Guði í garðinum var hann samt „einn“.

Mig grunar að margir í kirkjunni í dag geti samsamað sig þessu. Jafnvel þótt við þekkjum Frelsara okkar og elskum Hann, er okkur fullkunnugt um það að sál okkar þarfnast mannlegra tengsla, ekki síður en kærleika Föður okkar. Þeim er ekki ætlað að hafna, gera lítið úr eða koma í stað kærleika Hans, heldur eiga þau að bera honum lof og renna stoðum undir hann.

Guð er sjálfur til í fullkomnum, eilífum tengslum — sem Faðir, Sonur og Heilagur andi — og við sem berum mynd hans, þráum svipaða eind. Það heilkenni skapar vandræði í hinu yfirkynferðismiðaða samfélagi okkar, að þessi skilningur á þörf okkar á mannlegri tilfinninganánd kemur í stað eða er rangtúlkaður sem hreinlega líkamlegs eðlis.

 

Aldrei einn á ferð

Fyrir nokkrum árum sat ég við hlið fallegrar, ókunnugrar stúlku í fimmtugsafmæli vinar. Er við hófum kurteislegar samræður varð mér, og hinum sem nutum þessa málsverðar, ljóst að henni fannst hún vera útundan í félagsskap okkar. Ég spurði hana hvað það væri sem angraði hana og hún sagði: „Ég bjóst aldrei við því að sitja til borðs með svona ljótu fólki.“ Hún gerði sér enga grein fyrir því að með því orðalagi, sem notað var í svona miklu hugsunarleysi, hafði hún afhjúpað dýpsta sársaukann í sálinni sinni. Þegar aðrir við borðið okkar sneru sér undan, agndofa og sárir, reyndi hún að gera gott úr öllu saman. „Er einhver hér kristinn eins og þú?“

Þegar samræður okkar héldu áfram spurði hún mig hvað kristinn maður væri í raun. Ég sagði að fyrir náð Guðs merkti það að vera kristinn að ég væri aldrei ein á ferð. Ég fer á fætur á morgnana og Guð er til staðar, ég fer í háttinn á kvöldin og Hann er enn með mér. Hún hágrét þar til ég hélt að tárin ætluðu aldrei að hætta að renna niður. Sennilega hefur þáverandi kærasti hennar þerrað tárin með léreftsmunnþurkunni og leitt hana á brott. Einsemd; vöntun á sannri tilfinninganánd og höfnun á návist Guðs.

 

Nánd með Guði

Minningin um þessar löngu liðnu, áleitnu samræður leið í gegnum huga minn er ég gekk inn í kennslustofuna þennan kalda janúardag. Við vorum mætt til þess að læra um áfallahjálp, til þess að uppgötva nýjar aðferðir um heit Biblíunnar gagnvart þeim sem líða skort vegna tilfinningalegra þarfa. Er ég settist niður bar ég ríkulegt tilfinningalíf mitt saman við hina köldu einsemd fallegu stúlkunnar í veislunni.

Sjáið hvílíkan kærleika faðirinn hefur auðsýnt okkur, að við skulum kallast Guðs börn. Og það erum við. Heimurinn þekkir okkur ekki vegna þess að hann þekkti hann ekki. (1Jóh 3.1)

Kærleikur Föðurins brýst fram í okkur sem mönnum, köllun okkar er að elska hvert annað, umvafin og umlukin því sem er ósýnilegt en bráðnauðsynlegt velferð sálna okkar.

 

 

Fiona McDonald skrifaði en hún er framkvæmdastjóri æskulýðshreyfingar Skota.

 

Þorgils Hlynur Þorbergsson þýddi á íslensku