Kveðja

1 Frá Páli, þjóni Guðs, postula Jesú Krists, sem sendur er til að efla trú þeirra sem Guð hefur útvalið og veita þeim þekkingu á sannleikanum sem leiðir til guðrækni. 2 Þar er vonin um eilíft líf sem sá Guð, sem aldrei lýgur, hefur heitið frá eilífð. 3 Á settum tíma var orðið opinberað og fól Guð, frelsari vor, mér að prédika það.
4 Til Títusar, skilgetins barns míns í sameiginlegri trú.
Náð og friður frá Guði föður og Kristi Jesú, frelsara vorum.

Um öldunga og biskupa

5 Ég lét þig eftir á Krít til þess að þú færðir í lag það sem ógert var og skipaðir öldunga í hverri borg svo sem ég lagði fyrir þig.
6 Öldungur á að vera óaðfinnanlegur, einkvæntur,[ börn hans trúuð og ekki orðuð við léttúð eða agaleysi. 7 Því að biskup á að vera óaðfinnanlegur þar sem hann er ráðsmaður Guðs. Hann á ekki að vera sjálfbirgingur, ekki bráður, ekki drykkfelldur, ekki ofsafenginn, ekki sólginn í ljótan gróða. 8 Hann sé gestrisinn, góðgjarn, hóglátur, réttsýnn, guðrækinn og hafi góða stjórn á sjálfum sér. 9 Hann á að vera fastheldinn við hið áreiðanlega orð, sem kennt hefur verið, til þess að hann sé fær um bæði að uppörva með hinni heilnæmu kenningu og hrekja þá sem móti mæla.
10 Því að margir, einkum þeir umskornu, eru þverlyndir, blaðra um hégóma og leiða í villu 11 og verður að þagga niður í þeim. Það eru mennirnir sem eyðileggja heilar fjölskyldur er þeir kenna það sem eigi á að kenna fyrir svívirðilegs gróða sakir.
12 Einn landi þeirra, þeirra eigin spámaður,[ sagði: „Krítarmenn eru síljúgandi, óargadýr og letimagar.“
13 Þarna er þeim rétt lýst. Fyrir þá sök skalt þú vanda harðlega um við þá til þess að þeir hljóti heilbrigða trú 14og gefi sig ekki að bábiljum Gyðinga og boðum manna sem fráhverfir eru sannleikanum.
15 Allir hlutir eru hreinum hreinir en flekkuðum og vantrúuðum er ekkert hreint heldur er bæði hugur þeirra flekkaður og samviska. 16 Þeir segjast þekkja Guð en afneita honum með verkum sínum. Þeir eru viðbjóðslegir og óhlýðnir, óhæfir til hvers góðs verks.