Frásagnir af konum í Biblíunni fjalla ekki einvörðungu um fjölskyldur og börn, heldur einnig um snarræði og atorku, um list og snilld og það að finna rými innan þess ramma, sem stundum eru fremur þröngar skorður settar. Komdu til fundar við sex þessara kvenna — bæði góðra og vondra.

 

Anna — spákonan

Anna birtist í Lúkasarguðspjalli 2.36-38. Hún var kona háöldruð, sem var stödd í musterinu, þegar María og Jósef komu með hinn nýfædda Jesú, til þess að bera hann fram fyrir Drottin. Á yngri árum hafði Anna verið gift í sjö ár, en nú var hún orðin 84 ára gömul ekkja. Á efri árum yfirgaf hún nær aldrei musterið, en bað og fastaði dag og nótt. Þegar hún sá Jesú fór hún að segja öllum, sem á hlýddu og væntu endurlausnar Jerúsalem, frá Jesú. Samkvæmt rómversk-kaþólskri hefð er Anna talin vera dýrlingur og oft er hún sýnd á helgimyndum ásamt Maríu og Jesú, þar sem hún bendir á hann sem frelsarann. Lesið um Önnu í Lúkasarguðspjalli 2.36-38.

 

Jesebel — valkyrjan

Jesebel úr Konungabókunum í Gamla testamentinu var eiginkona Akabs Ísraelskonungs. Hún taldi eiginmann sinn á að yfirgefa Guð Ísraelsmanna og fela sig Baal á vald. Hún sá til þess að musteri Drottins var brennt og að spámenn Baals fengu völdin. Elísa spámaður ögraði drottningunni og spámönnum Baals. Eftir að hafa komið upp um falsspámennina, bauð hann að þeir yrðu drepnir sem fórn til Drottins. Elísa sá einnig fyrir dauða drottningarinnar. Það var Jehú liðsforingi sem ásamt liðsmönnum sínum drap Jesebel með því að varpa henni út um glugga. Eins og Elísa hafði spáð, var hold hennar étið af hundum og enginn mátti grafa hana (Síðari Konungabók, 9. kapítuli). Samkvæmt kristinni hefð síðari tíma hefur Jesebel orðið táknmynd falsspámanna og fallinna kvenna. Jesebel var einnig móðir Atölju, sem eftir andlát eiginmanns síns varð einvaldur í Júda. Hún tilbað einnig Baal og hlaut, eins og móðir hennar, voveiflegan bana, er æstur múgur réð hana af dögum. Lesið um Jesebel í Fyrri Konungabók, kapítulum 18 og 19 og Síðari Konungabók, 9. kapítula.

 

Debóra — dómarinn

Debóra var einnig spákona, en hún var jafnframt því eini kvendómarinn í Biblíunni. Í Dómarabókinni 4.5 er greint frá því, að hún „sat undir Debórupálma milli Rama og Betel á Efraímsfjöllum og Ísraelsmenn komu þangað upp til hennar og lögðu mál sín fyrir hana.“ Debóra spáði fyrir um sigur Ísraelsmanna á konungi Kanaaníta, Jabín, sem hafði kúgað þá og hún fór með þeim á vígvöllinn, þar sem hún og Barak herforingi kyrjuðu sigursöng (5. kapítuli Dómarabókar). Önnur kona hafði einnig úrslitaáhrif á sigur Ísraelsmanna þennan dag. Yfirhershöfðingi Jabíns, Sísera að nafni, hafði nefnilega flúið inn í tjald konunnar Jaelar, en þegar hann var sofnaður, þreif hún tjaldhæl og rak hann í gegnum gagnauga hans. Nokkrum sinnum er Debóra nefnd „Móðir Ísraels“ — en sú nafngift er runnin undan sigursöng þeirra Baraks. Jafnvel þó svo að allt frá fyrri hluta miðalda hafi það tíðkast, að konur gætu séð fyrir sér með forspá og tækju við opinberunum frá Guði, voru það nær einvörðungu karlmenn samkvæmt heimsmynd Biblíunnar, sem það gerðu, og því njóta þær báðar, Anna og Debóra, dálítillar sérstöðu. Lesið um Debóru í Dómarabókinni, kapítulum 4 og 5.

 

Dalila — svikaskassið

Þýðing nafns Dalílu á hebresku passar mjög vel, „sú sem veikti“. Hún var sú kona, sem hinn nautsterki dómari, Samson, varð skyndilega bálskotinn í. Óvinir Ísraelsmanna, Filistear, buðu  henni 1.100 síkla silfurs, ef hún gæti komist að leyndarmálinu á bak hina miklu krafta Samsonar. Þrisvar sinnum spurði hún, og þrisvar sinnum stríddi Samson henni með röngu svari, en að lokum sagði hann, að styrkur sinn fælist í því heiti sem hann hafði gefið Guði, að klippa aldrei hár sitt. Þegar hann sofnaði loks með höfuðið í kjöltu hennar sendi hún eftir þjóni sínum og fékk hann til þess að klippa hárlokka Samsonar af honum. Síðan tóku þeir Samson höndum og stungu úr honum augun. Dalíla er svo úr sögunni í Biblíunni, en Filistear græddu ekki mikið á feng sínum. Þegar leiða átti Samson inn í eitt af musterum þeirra sem herfang, hafði hárið vaxið á ný og hann notaði endurheimta krafta sína til þess að ryðja niður múrunum, þannig að bæði hann og óvinir hans grófust undir múrbrotunum. Söguna um Samson og Dalílu er að finna í 16. kapítula Dómarabókarinnar.  Lesið um Dalílu í Dómarabókinni, 16. kapítula.

 

Salóme — tálkvendið

Salóme og móðir hennar, Heródías, gegna lykilhlutverki í Nýja testamentinu, þar sem þær standa að morðinu á Jóhannesi skírara. Þeirra er getið í kapítulum 15 og 16 í Markúsarguðspjalli. Í Biblíunni er hún ýmist nefnd „dóttir Heródíasar“ eða „stúlkan“. Það er Gyðingurinn og sagnfræðingurinn Jósefus, sem síðar greinir frá því, að nafn hennar er Salóme. Heródías var gift Heródesi konungi, en hafði áður verið gift bróður hans og var þar að auki bróðurdóttir hans. Þess vegna hafði Jóhannes fordæmt hjónaband þeirra, þar sem það braut í bága við lög Gamla testamentisins. Heródes hafði stungið honum í fangelsi, en þegar hann hélt síðar upp á afmæli sitt, dansaði dóttir Heródíasar, Salóme, fyrir hann og alla gestina. Hún hreif þá alla, og Heródes lofaði henni því, að hann myndi sjá til þess að ósk hennar rættist, hver sem hún yrði. Að höfðu samráði við móður sína bað hún um að fá höfuð Jóhannesar skírara á fati. Heródes var hikandi, en stóð við loforð sitt og sendi böðul sem færði Salóme umbeðna gjöf. Jafnvel þótt gjörðum Salóme hafi að langmestu leyti verið stýrt af móður hennar, er hún eftir sem áður samkvæmt hefðinni tákn hins banvæna tálkvendis. Lesið um Salóme í 6. kapítula Markúsarguðspjalls og 14. kapítula Matteusarguðspjalls.

 

Lýdía — hin trúfasta

Aðeins er minnst lítillega á Lýdíu í Postulasögunni. Þar er henni lýst sem guðhræddri konu er verslaði með purpura. Páll hittir hana í Filippí. Þar situr hún við samkunduhús þar sem hún ásamt öðrum konum hlýðir á orð Páls. „Opnaði Drottinn hjarta hennar og hún tók við því sem Páll sagði“ (Post 16.14). Hún var skírð ásamt öllu öðru heimilisfólki og Páll dvaldi hjá henni á meðan hann var í bænum. Saga hennar er stutt en táknræn merking er gríðarmikil, þar sem Lýdía er talin vera fyrsta manneskjan í Evrópu, sem snýst til kristinnar trúar. Lesið um Lýdíu í 16. kapítula Postulasögunnar.

 

 

Myndatexti: Konur hafa úrslitavaldið í mörgum biblíusögum. Hér er Debóra, sem meðal annars er eini kvendómarinn, sem getið er um í Biblíunni. Málverk eftir Salomon de Bray (Wikimedia Commons).

[Þessa samantekt fengum við að láni hjá vinum okkar í Hinu danska Biblíufélagi og það var Þorgils Hlynur Þorbergsson guðfræðingur sem þýddi].