14. kafli

Sérhver er ábyrgur gerða sinna

12 Orð Drottins kom til mín:
13 Mannssonur, ef eitthvert land syndgar gegn mér með svikum rétti ég út hönd mína gegn því. Ég svipti það öllum birgðum brauðs[ og sendi hungur yfir það og eyði það mönnum og fénaði. 14 Þó að þeir þrír, Nói, Daníel og Job, byggju í því landi myndu þeir aðeins bjarga eigin lífi með réttlæti sínu, segir Drottinn Guð. 15 Ef ég sleppti villidýrum lausum í landinu svo að það eyddist að mönnum og yrði að eyðimörk sem enginn þyrði að fara um vegna villidýranna, 16 jafnvel þótt þessir þrír menn væru þar, svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn Guð, gætu þeir ekki bjargað sonum sínum og dætrum. Þeir einir mundu bjargast en landið yrði auðn. 17 Eða ef ég sendi sverð gegn þessu landi og segði: Sverð skal fara um landið allt og eyði það mönnum og skepnum. 18 Jafnvel þótt þessir þrír menn væru þar, svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn Guð, gætu þeir ekki bjargað sonum sínum og dætrum. Þeir einir myndu bjargast.
19 Eða ef ég sendi drepsótt gegn þessu landi og hellti heift minni yfir það með blóði til þess að eyða þar mönnum og skepnum. 20 Jafnvel þótt Nói, Daníel og Job væru þar, svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn Guð, gætu þeir hvorki bjargað syni né dóttur. Þeir gætu aðeins bjargað sjálfum sér með réttlæti sínu.
21 Því að svo segir Drottinn Guð: Þótt ég sendi fjóra hörðustu refsivendi mína gegn Jerúsalem, sverð, hungur, villidýr og drepsótt, til að eyða í henni mönnum og skepnum 22 verða samt nokkrir í henni sem sleppa. Þeir sem sleppa munu fara með syni sína og dætur þaðan og koma til ykkar. Þegar þið sjáið breytni þeirra og verk munuð þið láta huggast eftir þá ógæfu sem ég sendi yfir Jerúsalem, allt sem ég sendi yfir borgina. 23 Það verður ykkur til huggunar að sjá breytni þeirra og verk. Þá munuð þið skilja að það var ekki að ástæðulausu að ég gerði borginni allt þetta, segir Drottinn Guð.

15. kafli

Gagnslaus vínviður

1 Orð Drottins kom til mín:
2Mannssonur. Hvað hefur vínviðurinn
fram yfir aðra teinunga sem vaxa innan um skógartrén?
3Er af honum tekinn efniviður til að smíða eitthvað?
Fæst úr honum snagi sem hengja megi amboð á?
4Nei, hann er hafður í eldivið.
Þegar eldurinn hefur brennt báða enda
og miðjan er sviðin
er hann þá til nokkurs nýtur?
5Á meðan hann var heill
mátti ekkert gagn af honum hafa,
enn síður er hann til neins
þegar eldur hefur sviðið hann og brennt.
6Þess vegna segir Drottinn Guð:
Eins og ég hef farið með vínviðinn
sem óx innan um skógartrén
en ég fleygði á eld sem brenni,
þannig fer ég með yður,
Jerúsalembúar.
7Ég mun beina augliti mínu gegn þeim.
Þá verða þeir sem sleppa úr eldinum
gleyptir af eldi.
Þér munuð skilja að ég er Drottinn
þegar ég beini augliti mínu gegn þeim.
8Ég mun gera landið að auðn
af því að þeir hafa brugðist mér með svikum,
segir Drottinn Guð.