Falsspámenn

1 Orð Drottins kom til mín: 2 Mannssonur, talaðu gegn spámönnum Ísraels sem nú flytja spámannlegan boðskap. Segðu við þá sem flytja spámæli úr eigin hjarta: Hlýðið á orð Drottins. 3 Svo segir Drottinn Guð: Vei hinum heimsku spámönnum sem fara eftir eigin hugarburði án þess að hafa séð neitt. 4 Spámenn þínir, Ísrael, eru eins og refir í rústum. 5 Þið hafið hvorki stigið upp í skörðin í varnarmúrnum né gert við víggirðingar fyrir Ísraelsmenn svo að þeir geti staðist í orrustunni á degi Drottins. 6 Sýnir þeirra eru tál og spámælin lygi. Þeir segja: „Drottinn hefur sagt þetta,“ – þó að Drottinn hafi ekki sent þá. Samt bíða þeir þess að hann láti boðskapinn rætast. 7 Hafið þið ekki séð tálsýnir og flutt fölsk spámæli þegar þið sögðuð: „Drottinn hefur sagt þetta,“ þó að ég hafi ekki talað?
8 Þess vegna segir Drottinn Guð svo: Þar sem þið boðið tál og ljúgið upp sýnum stend ég, Drottinn Guð, gegn ykkur. 9 Ég mun rétta út hönd mína gegn þeim spámönnum sem sjá tálsýnir og boða lygi. Þeir verða ekki í samfélagi þjóðar minnar og munu ekki færðir á skrá yfir Ísraelsmenn og skulu ekki fá að koma inn í land Ísraels. Þá munuð þið skilja að ég er Drottinn Guð. 10 Þeir hafa blekkt þjóð mína með því að boða heill þar sem engin heill var. Væri veggur reistur kölkuðu þeir hann. 11 Segðu við þá sem kalka: Þegar steypiregn kemur, haglél dynur og stormur skellur á honum 12 og veggurinn er hruninn, munu menn þá ekki spyrja ykkur: Hvar er nú kalkið sem þið kölkuðuð með?
13 Þess vegna segir Drottinn Guð svo: Ég mun láta storm skella á í heift minni og steypiregn og eyðandi hagl dynja á í bræði minni. 14 Ég mun brjóta niður vegginn sem þið kölkuðuð og jafna hann við jörðu svo að undirstaðan komi í ljós. Þegar hann hrynur munuð þið farast undir honum. Þá munuð þið skilja að ég er Drottinn. 15 Ég mun svala heift minni á veggnum og þeim sem kölkuðu hann. Ég mun segja: Veggurinn er horfinn og þeir sem kölkuðu hann, 16 spámenn Ísraels, sem fluttu spámæli um Jerúsalem og sáu sýnir um heill handa borginni þar sem engin heill var, segir Drottinn Guð.