Tákn um útlegð

1 Orð Drottins kom til mín: 2 Mannssonur, þú býrð á meðal þverúðugra. Þeir hafa augu til að sjá með en sjá ekki og eyru til að heyra með en heyra ekki þar sem þeir eru þverúðugir. 3 En þú, mannssonur, um hábjartan dag í augsýn þeirra skaltu taka saman farangur þinn sem þú getur haft með þér í útlegð. Þú skalt halda að heiman til annars staðar að þeim ásjáandi. Ef til vill sjá þeir þá og skilja þó að þeir séu þverúðugir. 4 Þú skalt bera út farangur þinn eins og farangur útlaga um hábjartan dag, í augsýn þeirra. Sjálfur skaltu ganga út um kvöld að þeim ásjáandi eins og þeir sem fluttir eru í útlegð. 5 Rjúfðu skarð í vegginn í augsýn þeirra og farðu út um það. 6 Taktu farangurinn á öxlina fyrir augum þeirra og farðu með hann á brott í myrkrinu. Hyldu andlit þitt svo að þú sjáir ekki landið því að ég hef gert þig að tákni fyrir Ísraelsmenn.
7 Ég gerði eins og fyrir mig var lagt. Um hábjartan dag fór ég fór út með farangur minn eins og farangur útlaga. Um kvöldið rauf ég skarð í vegginn, hélt af stað í myrkri og tók farangurinn á öxlina í augsýn þeirra.
8 Orð Drottins kom til mín morguninn eftir: 9 Þú, mannssonur, hafa Ísraelsmenn, þessi þverúðuga þjóð, ekki spurt þig: „Hvað ert þú að gera?“ 10 Svaraðu þeim þannig: Svo segir Drottinn Guð: Þessi boðskapur á við um þjóðhöfðingjann í Jerúsalem og alla Ísraelsmenn sem í borginni eru. 11 Segðu: Ég er tákn fyrir ykkur. Það sem ég hef gert verður gert við þá: Þeir fara í útlegð, í fangavist. 12 Þjóðhöfðingi þeirra, sem er mitt á meðal þeirra, mun taka farangur sinn á öxl sér og fara með hann á brott í niðamyrkri. Veggurinn verður rofinn svo að um hann megi fara með farangurinn. Þjóðhöfðinginn mun hylja andlit sitt svo að hann sjái ekki landið.