10. kafli

Drottinn yfirgefur musterið

18 Þá yfirgaf dýrð Drottins þröskuld hússins og nam staðar yfir kerúbunum. 19 Kerúbarnir lyftu þá vængjum sínum og hófu sig upp frá jörðinni fyrir augum mínum. Þegar þeir fóru voru hjólin við hlið þeirra. Þeir námu staðar við innganginn í austurhlið húss Drottins og dýrð Guðs Ísraels var yfir þeim. 20 Það voru sömu verurnar og ég hafði séð undir Guði Ísraels við Kebarfljót og ég gerði mér grein fyrir að þetta voru kerúbar. 21 Þeir höfðu fjögur andlit og fjóra vængi hver og undir vængjum sínum eitthvað sem líktist mannshöndum. 22 Andlitin voru eins á að líta og andlitin sem ég sá við Kebarfljót. Allir gengu þeir beint af augum.

11. kafli

Dómur yfir leiðtogum Jerúsalem

1 Því næst hóf andi mig upp og flutti mig að austurhliðinu á húsi Drottins, hliðinu sem snýr í austur. Við innganginn í hliðið voru tuttugu og fimm menn og meðal þeirra sá ég Jaasanja Assúrsson og Pelatja Benajason sem voru leiðtogar fólksins. 2 Hann sagði við mig: „Mannssonur, þetta eru þeir menn sem leggja á ráðin um rangindi og brugga ill ráð 3 og segja: Þess gerist ekki þörf að reisa hús á næstunni. Borgin er potturinn og við erum kjötið. 4Mannssonur, komdu fram sem spámaður, boðaðu gegn þeim.“
5 Þá greip andi Drottins mig og sagði við mig: „Segðu: Svo segir Drottinn: Þetta hafið þið hugsað ykkur, Ísraelsmenn, en ég veit hvað ykkur kom í hug. 6 Þið hafið drepið margt af ykkar eigin fólki í þessari borg og þið hafið fyllt götur hennar vegnum mönnum. 7 Þess vegna segir Drottinn Guð: Þeir ykkar sem þið hafið vegið og skilið eftir á götum borgarinnar eru kjötið og borgin er potturinn. En ég mun reka ykkur út úr henni. 8 Þið óttist sverð og sverð er það sem ég mun senda gegn ykkur, segir Drottinn Guð. 9 Ég mun reka ykkur út úr borginni og selja ykkur í hendur útlendingum og fullnægja refsidómnum yfir ykkur. 10 Þið munuð falla fyrir sverði. Ég mun dæma ykkur við landamæri Ísraels. Þá munuð þið skilja að ég er Drottinn. 11 Borgin skal hvorki verða pottur fyrir ykkur né þið kjötið í honum. Ég mun dæma ykkur við landamæri Ísraels. 12 Þá munuð þið skilja að ég er Drottinn og að þið hafið ekki farið að lögum mínum og ekki framfylgt reglum mínum en hins vegar hafið þið farið eftir reglum þjóðanna sem eru umhverfis ykkur.“
13 Á meðan ég flutti þessi spámannlegu orð dó Pelatja Benajason. Þá féll ég fram á ásjónu mína og hrópaði hárri röddu og sagði: „Drottinn Guð. Ætlar þú að eyða öllum sem eftir eru af Ísrael?“