Endirinn kemur

1 Orð Drottins kom til mín:
2Mannssonur, svo segir Drottinn Guð við land Ísraels:
Endir er kominn,
endirinn fyrir fjögur horn heimsins.
3Nú eru endalok þín komin,
ég sleppi lausri heift minni gegn þér
og dæmi þig samkvæmt hegðun þinni
og launa þér svívirðingar þínar.
4Ég mun hvorki líta þig vægðarauga
né sýna þér miskunn,
heldur mun ég launa þér breytni þína
og svívirðingar þínar skulu vera mitt á meðal þín.
Þá skuluð þér skilja að ég er Drottinn.
5Svo segir Drottinn Guð:
Ógæfa á ógæfu ofan,
hún er yfir dunin.
6Endir er kominn,
endalokin orðin,
endalokin komin yfir þig.
7Nú er komið að þér,
íbúi landsins,
tíminn er kominn,
dagurinn í nánd.
8Brátt úthelli ég reiði minni yfir þig
og svala heift minni á þér.
Ég mun dæma þig eftir breytni þinni
og launa þér svívirðingar þínar.
9Ég mun hvorki líta þig vægðarauga
né sýna þér miskunn
því að ég mun launa þér breytni þína
og svívirðingar þínar skulu vera mitt
á meðal þín.
Þá munuð þér skilja að ég, Drottinn,
er sá sem slær.
10Dagurinn er kominn,
hann er kominn.
Endalokin komin,
ranglætið blómstrar,
hrokinn vex,
11ofbeldið eykst,
verður svipa guðlausra.
Enginn þeirra verður eftir,
ekkert eftir af auði þeirra,
ekkert af vegsemd þeirra og dýrð.
12Tíminn er kominn,
dagurinn í nánd.
Kaupandinn gleðjist ekki,
og seljandinn syrgi ekki
því að reiði kemur yfir allan landslýð.
13Seljandinn kemst ekki aftur til hins selda
þó að báðir haldi lífi
því að heiftin kemur yfir allan landslýð,
hún snýr ekki aftur,
og sá sem lifir í synd sinni
mun ekki lífi halda. [