1. kafli

22 Yfir höfðum veranna var eitthvað sem líktist hellu og ljómaði eins og ógnvekjandi kristall sem þandist út yfir höfðum þeirra. 23 Undir hellunni voru vængir þeirra þandir út svo að þeir snertu hver annan og hver vera um sig hafði tvo vængi sem huldu líkama hennar.
24 Þegar verurnar hreyfðu sig heyrði ég þytinn frá vængjum þeirra. Hann líktist nið mikilla vatna, þrumuraust Hins almáttka, háum hrópum og gný frá herbúðum. En þegar þær námu staðar létu þær vængina síga. 25 Fyrir ofan helluna yfir höfðum þeirra heyrðist þytur en þegar þær staðnæmdust létu þær vængina síga.
26 Ofan við helluna yfir höfðum þeirra var eitthvað sem leit út eins og safír, eitthvað sem líktist hásæti og í því sem líktist hásæti sat einhver sem virtist vera í mannsmynd. 27 Ég sá að frá því sem virtist vera lendar hans og upp úr var eitthvað sem líktist glóandi hvítagulli en frá lendum hans og niður úr var hann sem eldur og lagði skæran bjarma af allt umhverfis og frá honum stafaði geislaflóð 28 líkast regnboga í skýjum á votviðrisdegi. Þannig var ímynd dýrðar Drottins á að líta. Þegar ég sá hana féll ég fram á ásjónu mína til jarðar. Þá heyrði ég rödd einhvers sem talaði.

2. kafli

Köllun spámannsins

1 Hann sagði við mig: „Mannssonur, stattu á fætur og ég mun tala við þig.“
2 Þegar hann talaði til mín kom andi í mig sem reisti mig á fætur og ég hlustaði á það sem hann sagði við mig. 3 Hann sagði við mig: „Mannssonur, ég sendi þig til Ísraelsmanna sem eru uppreisnargjarnir og hafa risið gegn mér. Þeir og feður þeirra hafa brotið gegn mér allt til þessa dags. 4 Ég sendi þig til barna sem eru hörð á svip og hafa forhert hjarta. Þú skalt segja við þau: Svo segir Drottinn Guð. 5 Hvort sem þeir hlusta eða neita að hlusta, því að þeir eru þverúðugt fólk, skulu þeir játa að spámaður hefur verið á meðal þeirra. 6 En þú, mannssonur, skalt ekki óttast þá né hræðast orð þeirra þó að þyrnar umlyki þig og þú sitjir á sporðdrekum. Þú skalt ekki óttast orð þeirra og ekki hræðast fyrir augliti þeirra því að þeir eru þverúðugir. 7 Þú skalt flytja þeim orð mín hvort sem þeir hlusta á þau eða gefa þeim engan gaum því að þeir eru þverúðugir.