Forn texti

Eþíópska Biblían á ge’ez-tungumálinu hefur verið í notkun í um það bil 1500 ár og er því ein elsta biblíuþýðing í heimi.

Samt sem áður hefur engin Biblía á ge’ez-málinu nokkurn tímann verið gefin út. Kirkjurnar í Eþíópíu notuðu handskrifaða hluta á bókfelli eða dýraskinni, sem ekki voru öllum fáanleg til lestrar.

„Hlutarnir úr Biblíunni á ge’ez sem voru til staðar voru eingöngu lesnir af prestum og hinir trúuðu gátu aðeins hlustað á þá lesa upp úr Orðinu,“ sagði hans heilagleiki Abune Mathewose, patríarki eþíópsku rétttrúnaðarkirkjunnar (sjá mynd, en þar heldur Mathewose á Nýja testamentinu á ge’ez-málinu).

Öllum aðgengilegt

Þess vegna fékk fyrsta útgáfa Nýja testamentisins á ge’ez-málinu svo hlýjar móttökur við sérstaka athöfn í nóvembermánuði.

Þar sem meginviðtakendur þessa Nýja testamentis og Biblíunnar í heild, sem mun sigla í kjölfarið, eru prestar eþíópsku rétttrúnaðarkirkjunnar og rómversk-kaþólsku kirkjunnar í Eþíópíu, auk fræðimanna á sviði Biblíunnar víðs vegar um heiminn, kemur það einnig venjulegu, kristnu fólki í Eþíópíu til góða, samkvæmt því sem haft er eftir verkefnisstjóra Biblíufélagsins, Endrias Kacharo.

„Með útgáfu þessa Nýja testamentis hefur Heilög ritning á ge’ez-málinu verið gerð öllum aðgengileg,“ útskýrir hann. „Reyndar hafa 5.000 eintök úr fyrstu prentun selst upp innan viku frá útgáfuhátíðinni og kirkjur eru þegar farnar að biðja okkur um að prenta meira!“

Minnisvert verkefni

Hið minnisverða verkefni að safna saman mismunandi ritningartextum á ge’ez- málinu úr klaustrum, söfnum og staðarkirkjum víðs vegar um landið hófst þegar árið 2009, þegar eþíópsku rétttrúnaðarkirkjurnar og rómversk-kaþólsku kirkjurnar í Eþíópíu hófu samstarf við Hið eþíópska biblíufélag.

Þeir fengu fræðimenn til starfa og tóku að safna saman 81 bók hins opinbera helgiritasafns sem eþíópska rétttrúnaðarkirkjan styðst við og 73 bókum helgiritasafns rómversk-kaþólsku kirkjunnar í Eþíópíu.

Tenging við guðlega leyndardóminn

Hans heilagleiki Abune Mathewose blessaði Nýja testamentið á ge’ez-málinu við sérstaka guðsþjónustu þar sem hundruð lærðra og leikra leiðtoga komu saman.

Hann sagði eftirfarandi um ge’ez-tungumálið og hið nýútgefna Nýja testamenti: „Ge’ez er tungumál sem við notum til þess að tengja okkur við guðlegan leyndardóm í gegnum daglegt atferli, við mótum viðhorf samfélagsins í gegnum hirðishlutverkið og leiðbeinum fólkinu okkar með þeirri þekkingu sem þetta tungumál aflar okkur.“ Að lokum bætti hann við: „Þess vegna er það áþreifanleg og endalaus uppspretta, þar sem Orð Guðs hefur verið ritað á því.“

Áætlað er að Biblían í heild komi út árið 2018.

Biðjum fyrir:

• Nýja testamentinu á ge’ez-máli — þökkum Guði fyrir þessa nýju þýðingu, að hún megi vera svo mörgu fólki í Eþíópíu ljós á vegi.
• Kirkjunni í Eþíópíu — að fyrir starf kirkjunnar komist margir til trúar og öðlist þekkingu með því að lesa þessa skiljanlegu biblíuútgáfu.
• Hinu eþíópska biblíufélagi — fyrir áframhaldandi þýðingarstarfi, er stefnt er að því að ljúka Biblíunni í heild á ge’ez-málinu árið 2018.