Köllun Esekíels

1 Á fimmta degi fjórða mánaðar á þrítugasta árinu, þegar ég dvaldist á meðal útlaganna við Kebarfljót, opnaðist himinninn og ég sá guðdómlegar sýnir. 2 Á fimmta degi mánaðarins, það er að segja á fimmta ári eftir að Jójakín konungur hafði verið rekinn í útlegð, 3 kom orð Drottins til Esekíels Búsísonar prests, í landi Kaldea við Kebarfljót og þar kom hönd Drottins yfir hann.

Dýrð Drottins opinberuð

4 Þá sá ég hvassviðri koma úr norðri, mikið ský og eldglæringar. Um það lék ljómi og úr honum miðjum leiftraði sem af hvítagulli. 5 Úr ljómanum miðjum birtist eitthvað sem líktist fjórum lifandi verum. Þannig litu þær út: Á þeim var mannsmynd 6 en hver þeirra hafði fjögur andlit og fjóra vængi. 7 Fótleggir þeirra voru beinir og iljarnar eins og kálfsklaufir og þeir ljómuðu eins og fægður eir. 8 Þær höfðu mannshendur undir vængjum sínum á allar fjórar hliðar. Allar fjórar höfðu andlit og vængi 9 og snertu vængir þeirra hver annan og andlit þeirra sneru beint fram þegar þær gengu beint af augum. 10 Andlit þeirra litu þannig út: Þær höfðu mannsandlit sem sneri fram á öllum fjórum, allar fjórar höfðu ljónsandlit hægra megin og allar fjórar nautsandlit vinstra megin og allar fjórar höfðu þær arnarandlit sem sneri aftur. 11 Vængir þeirra voru þandir upp á við. Hver þeirra hafði tvo vængi sem snertust og tvo vængi sem huldu líkama þeirra. 12 Hver um sig gekk beint af augum. Þær gengu þangað sem andinn vildi að þær gengju og sneru sér ekki við á göngu sinni. 13 Verurnar voru á að líta sem blossandi kolaglóð og minntu á kyndla og gengu leiftur á milli veranna, leiftrandi blossar. 14 Verurnar hlupu fram og aftur, líkastar eldingarleiftrum.
15 Þegar ég horfði á verurnar sá ég eitt hjól á jörðinni við hliðina á hverri af verunum fjórum. 16 Þessi hjól virtust vera gerð úr ljómandi krýsólítsteini og öll voru þau eins að sjá. Þau voru þannig gerð að eitt virtist vera innan í öðru. 17Hjólin gátu snúist í allar fjórar áttir án þess að breyta um stefnu þegar þau snerust. 18 Á þeim voru hjólgjarðir og sá ég að allar fjórar voru alsettar augum allt um kring. 19 Þegar verurnar gengu snerust hjólin við hlið þeirra og þegar verurnar hófu sig upp frá jörðinni hófust hjólin einnig. 20 Þær gengu þangað sem andinn vildi að þær gengju og hjólin hófust um leið og þær því að andi veranna var í hjólunum. 21 Þegar þær gengu snerust þau og þegar þær námu staðar staðnæmdust þau einnig og þegar verurnar hófu sig frá jörðu lyftust hjólin um leið og þær því að andi veranna var í hjólunum.