Absalon snýr til Jerúsalem
1 Þegar Jóab Serújusyni varð ljóst að Absalon varð konungi aftur hjartfólginn 2sendi hann mann til Tekóa til að sækja þangað vitra konu og sagði við hana: „Þú skalt láta eins og þú sért að syrgja einhvern. Búðu þig sorgarbúningi og hættu að bera á þig smyrsl. Þú skalt hegða þér eins og kona sem lengi hefur syrgt látinn mann. 3 Farðu svo til konungsins og segðu við hann.“ Og Jóab lagði henni orð í munn.
4 Konan frá Tekóa fór síðan til konungs, féll fram á ásjónu sína, sýndi honum lotningu og sagði: „Hjálpaðu mér, konungur.“ 5 Konungur spurði hana: „Hvað amar að þér?“ Hún svaraði: „Ég er ekkja. Þegar eiginmaður minn dó 6 átti ambátt þín tvo syni. Um daginn lenti þeim saman úti á akri. Þar eð enginn var nærstaddur til að skilja þá að drap annar þeirra hinn. 7 Nú hefur öll ættin snúist gegn ambátt þinni og segir: Framseldu bróðurmorðingjann svo að við getum tekið hann af lífi og hefnt bróður hans sem hann drap. Þannig getum við rutt erfingjanum úr vegi. Þeir ætla að kæfa þá glóð sem var skilin eftir handa mér og þeir ætla hvorki að skilja eiginmanni mínum eftir nafn né niðja á jörðinni.“
8 Konungur svaraði konunni: „Farðu heim. Ég skal sjálfur leysa vanda þinn.“ 9Konan frá Tekóa sagði þá við konung: „Herra konungur, sökin hvílir á mér og fjölskyldu minni. Konungur er saklaus og einnig hásæti hans.“ 10 Þá sagði konungur: „Þann sem ásakar þig skaltu senda til mín. Hann mun ekki áreita þig aftur.“ 11 Hún sagði: „Konungur nefni nafn Drottins, Guðs síns, því til staðfestu að blóðhefnandinn vinni ekki enn verra níðingsverk og grandi syni mínum.“ Hann svaraði: „Svo sannarlega sem Drottinn lifir skal ekki nokkurt hár á höfði sonar þíns skert.“
12 Þá sagði konan: „Leyfðu ambátt þinni að segja enn eitt orð við þig, herra minn og konungur.“ Hann svaraði: „Tala þú,“ 13 og hún sagði: „Hvers vegna hefurðu slíkt í hyggju með lýð Guðs? Konungur sakfellir sjálfan sig leyfi hann þeim ekki að snúa heim sem hann hefur rekið í útlegð. 14 Vissulega hljótum við öll að deyja. Við erum eins og vatn sem hellt er á jörðina og eigi verður náð upp aftur. Guð vill ekki svipta neinn lífi heldur finnur hann ráð til þess að sá sem hann hefur hrakið frá sér geti snúið aftur. 15 Ég er nú komin til þess að leggja þetta mál fyrir þig, konungur og herra, vegna þess að fólkið gerði mig hrædda. Ambátt þín hugsaði því með sér: Ég skal tala við konunginn. Ef til vill gerir konungur bón mína. 16 Konungur mun áreiðanlega hlusta og hjálpa ambátt sinni úr greipum þess manns sem ætlar að afmá bæði mig og son minn úr erfðalandi Guðs. 17 Ambátt þín hugsaði með sér: Svar herra míns, konungsins, mun róa huga minn. Herra minn, konungurinn, er eins og engill Drottins, hann skilur allt. Drottinn, Guð þinn, sé með þér.“
18 Konungur svaraði og sagði við konuna: „Svaraðu nú spurningu minni undanbragðalaust.“ Konan sagði: „Já, herra minn og konungur.“ 19 Þá spurði konungur: „Er hönd Jóabs með í þessum leik?“ Konan svaraði og sagði: „Svo sannarlega sem þú lifir, herra minn og konungur, þá er ekki hægt að fara í kringum neitt sem herra minn, konungurinn, hefur sagt. Já, það var Jóab, þjónn þinn, sem gaf fyrirmælin og lagði mér, ambátt þinni, öll þessi orð í munn. 20Jóab, þjónn þinn, gerði þetta til þess að þú sæir málið í öðru ljósi. En herra minn er eins vitur og engill Guðs. Þú veist allt sem gerist í landinu.“