Amnon og Tamar

1 Nú segir frá því að Absalon, sonur Davíðs, átti fallega systur sem hét Tamar. Amnon, sonur Davíðs, varð ástfanginn af henni. 2 Amnon varð hugsjúkur af þrá til Tamar, systur sinnar. En af því að hún var óspjölluð mey sá Amnon enga leið til að fá vilja sínum framgengt við hana.
3 Amnon átti vin sem hét Jónadab. Hann var sonur Símea, bróður Davíðs. Jónadab var afar ráðsnjall maður. 4 Einhverju sinni spurði hann Amnon: „Hvers vegna ert þú alltaf svona niðurdreginn, konungssonur? Viltu ekki segja mér það?“ Amnon svaraði: „Ég elska Tamar, systur Absalons, bróður míns.“ 5 Þá sagði Jónadab við hann: „Leggstu í rúmið og láttu sem þú sért veikur. Og þegar faðir þinn kemur til þess að vitja um þig skaltu segja við hann: Láttu Tamar, systur mína, koma og gefa mér að eta. Hún á að búa til matinn fyrir augum mínum og síðan et ég úr hendi hennar.“
6 Amnon lagðist þá og lést vera veikur. Þegar konungur kom að heimsækja hann sagði Amnon: „Láttu Tamar, systur mína, koma og baka tvær kökur fyrir augum mínum og síðan et ég þær úr hendi hennar.“ 7 Davíð sendi mann með þessi boð til Tamar: „Farðu heim til Amnons, bróður þíns, og búðu til mat handa honum.“
8 Tamar fór þá heim til Amnons, bróður síns, sem lá rúmfastur. Hún tók deig, hnoðaði það og gerði kökur en hann horfði á. Þegar hún var búin að baka kökurnar 9 bar hún þær fyrir hann á pönnunni. Hann vildi ekki eta en sagði: „Látið alla fara út.“ 10 Amnon sagði við Tamar: „Færðu mér matinn inn í svefnherbergið svo að ég geti etið úr hendi þinni.“ Tamar tók þá kökurnar, sem hún hafði bakað, og fór með þær inn í svefnherbergið til Amnons bróður síns. 11Þegar hún rétti honum kökurnar, svo að hann gæti etið þær, þreif hann í hana og sagði við hana: „Komdu, systir mín, og leggstu með mér.“ 12 Hún svaraði: „Nei, bróðir minn, svívirtu mig ekki því að slíkt er óleyfilegt í Ísrael. Fremdu ekki slíka óhæfu. 13 Og hvað ætti að verða um mig með skömm mína? Þú sjálfur yrðir talinn meðal mestu ómenna Ísraels. Talaðu heldur við konunginn, hann hefur áreiðanlega ekkert á móti því að þú eigir mig.“
14 En hann hlustaði ekki á hana heldur þreif í hana, neytti aflsmunar og nauðgaði henni.
15 Eftir það fékk Amnon mikla óbeit á henni. Nú hataði hann hana meira en hann hafði elskað hana áður og Amnon sagði við hana: „Farðu á fætur og hafðu þig á burt.“ 16 En hún svaraði honum: „Nei, ef þú rekur mig nú á brott er það enn meira ranglæti en það sem þú gerðir mér.“ En hann hlustaði ekki á hana 17heldur kallaði á unglinginn, sem þjónaði honum, og sagði: „Losaðu mig við þessa stúlku, rektu hana út á götuna og læstu dyrunum á eftir henni.“
18 Tamar var í síðum ermalöngum kjól því að dætur konunga klæddust þess konar yfirhöfnum á meðan þær voru óspjallaðar meyjar. Þegar þjónninn hafði rekið hana út á götuna og læst dyrunum á eftir henni 19 jós Tamar mold yfir höfuð sér og reif kjólinn, sem hún var í, lagði hönd á höfuð sér og gekk hljóðandi á brott. 20 Þá sagði Absalon, bróðir hennar, við hana: „Hefur Amnon, bróðir þinn, verið með þér? Segðu engum frá því, systir, því að hann er bróðir þinn. Taktu þetta ekki nærri þér.“ Síðan bjó Tamar ein og yfirgefin í húsi Absalons, bróður síns.
21 Þegar Davíð konungur frétti af þessu varð hann mjög reiður. 22 En Absalon talaði ekki við Amnon eftir þetta, hvorki illt né gott. Hann hataði Amnon vegna þess að hann hafði nauðgað Tamar, systur hans.