Fyrir rétt rúmu ári var Hið aserska biblíufélag opinberlega stofnað af trúmálanefnd ríkisstjórnarinnar. Þetta varð niðurstaða gríðarlegrar vinnu lítils, staðbundins hóps, með stuðningi frá Sameinuðu biblíufélögum.

„Guð er virkilega góður við okkur á þessum mikilvægu tímamótum, er við setjum á stofn hið unga biblíufélag okkar,“ segir Rasim Khalilov, en hann varð framkvæmdastjóri stjórnarskrárnefndar í apríl síðastliðnum. „Við sjáum hvernig félagar okkar hjálpa okkur að stíga fyrstu skrefin og okkur þykir virkilega vænt um ykkur, kæru vinir.“

 

96% múslímar

Þó svo að Aserbaísjan, sem er í Mið-Asíu og var hluti af Sovétríkjunum sálugu, sé opinberlega trúlaust ríki, eru 96% íbúa þess múslímar. Kristnir menn eru því lítill minnihluti, sem nær aðeins rétt rúmlega 2% hinna 9,5 milljóna landsmanna. Þar eru allar kirkjudeildir (rétttrúnaðarkirkjan, rómversk-kaþólska kirkjan og evangelíska kirkjan) meðtaldar. Þessar mismunandi kirkjudeildir eiga allar fulltrúa í stjórn hins nýja Biblíufélags.

„Aserbaisjan er land sem sárvantar Biblíuna,“ segir Rasim. „Í síðustu viku fluttum við inn 3.000 rússneskar Biblíur frá Úkraínu. Núna erum við önnum kafin við að dreifa þeim í kirkjur sem hafa hlakkað til að fá þær! Á döfinni er einnig að prenta 1.600  aserskar Biblíur til þess að bæta úr þörf aserskumælandi fóks í kirkjunum okkar.“

„Og við eigum engar Biblíur fyrir börn eða ungt fólk, hvorki á rússnesku né asersku, þannig að við þurfum að einblína á það einnig.“

 

Margir minnihlutahópar

En landið er einnig heimili margra minnihlutahópa — Talish, Údi, Tsahur, Hanalig, Tatara, aðeins svo nokkrir séu nefndir. Sumir þeirra eiga Biblíuna að hluta til, en flestir eiga ekki neitt.

„Okkar bíður því mikið verk, að þýða Biblíuna á þessi tungumál,“ bætir Rasim við.

Tvær rosknar konur halda á rússnesku Biblíunum sínum.

 

 

(Íslensk þýðing, Þorgils Hlynur Þorbergsson)