15 Síðan fór Natan heim til sín.

Sonur Davíðs og Batsebu deyr

Drottinn lét drenginn, sem kona Hetítans Úría ól Davíð, veikjast. 16 Davíð sneri sér þá til Drottins vegna drengsins. Hann lagði á sig stranga föstu, fór heim og lagðist til svefns á bera jörðina. 17 Öldungar ættar hans komu til hans og reyndu að fá hann til að standa upp. En hann vildi það ekki og neytti ekki heldur matar með þeim. 18 Á sjöunda degi dó drengurinn. Þjónar Davíðs þorðu þá ekki að segja honum að drengurinn væri dáinn því að þeir hugsuðu með sér: „Við reyndum að tala við hann á meðan drengurinn var á lífi en hann vildi ekki hlusta á okkur. Hvernig eigum við þá að geta sagt við hann: Drengurinn er dáinn? Hann kynni að vinna voðaverk.“
19 Þegar Davíð sá að þjónar hans voru að hvíslast á varð honum ljóst að drengurinn væri dáinn. Þá spurði hann þjóna sína: „Er drengurinn dáinn?“ Og þeir svöruðu: „Já, hann er dáinn.“ 20 Þá stóð Davíð upp af jörðinni, þvoði sér, smurði sig og skipti um föt, gekk svo inn í hús Drottins og varpaði sér þar niður. Þegar hann kom heim til sín bað hann um mat og var honum þá borinn matur. Þegar hann hafði matast 21 spurðu þjónar hans: „Hvers vegna gerir þú þetta? Á meðan drengurinn var lifandi fastaðir þú og grést en um leið og hann deyr ferðu á fætur og matast.“ 22 Hann svaraði: „Ég fastaði og grét á meðan drengurinn var á lífi af því að ég hugsaði með mér: Ef til vill sýnir Drottinn mér miskunn og drengurinn lifir. 23 En hvers vegna ætti ég að fasta nú þegar hann er dáinn? Get ég sótt hann? Ég mun einhvern tíma fara til hans en hann mun ekki snúa aftur til mín.“

Fæðing Salómons

24 Davíð huggaði Batsebu, eiginkonu sína, fór inn til hennar og lagðist með henni. Hún fæddi son sem hann gaf nafnið Salómon. Drottinn elskaði Salómon 25 og lét Natan spámann bera þau skilaboð að hann ætti að heita Jedídjah[vegna Drottins.

Davíð vinnur Rabba

26 Jóab gerði árás á Rabba, borg Ammóníta. Þegar hann hafði unnið konungsborgina 27 sendi Jóab þessi boð til Davíðs: „Ég hef ráðist á Rabba og tekið borgarhlutann við vatnið. 28 Kallaðu nú saman það sem eftir er af liðinu og sestu um borgina. Þú skalt sjálfur taka borgina svo að það verði ekki ég sem vinn hana og hún verði kennd við mig.“
29 Davíð safnaði nú saman öllum hernum, skundaði til Rabba, réðst á borgina og vann hana. 30 Því næst tók hann kórónu konungs Ammóníta af höfði hans. Hún var ein talenta gulls að þyngd, skreytt gimsteini, og var hún sett á höfuð Davíðs. Hann tók mjög mikið herfang úr borginni 31 og flutti borgarbúa burt og lét þá vinna með steinsögum, járnhökum og járnöxum. Hann lét þá einnig vinna við tígulsteinagerð. Þannig fór hann með allar aðrar borgir Ammóníta. Því næst sneri Davíð ásamt öllum hernum heim til Jerúsalem.