Dómur Natans og iðrun Davíðs
1 Drottinn sendi nú Natan til Davíðs. Þegar hann kom til hans sagði hann: „Í borg einni bjuggu tveir menn. Annar var ríkur en hinn fátækur. 2 Ríki maðurinn átti fjölda sauða og nauta 3 en sá fátæki átti aðeins eitt lítið gimbrarlamb sem hann hafði keypt. Hann fóðraði það og það dafnaði hjá honum og með börnum hans. Það át af brauði hans, drakk úr krús hans, svaf við brjóst hans og var eins og dóttir hans. 4 Einhverju sinni kom gestur til ríka mannsins. En hann tímdi ekki að taka neinn af sauðum sínum eða nautum til að matreiða handa ferðamanninum sem kominn var til hans. Hann tók því lamb fátæka mannsins og matbjó það handa komumanni.“
5 Þá reiddist Davíð þessum manni ákaflega og sagði við Natan: „Svo sannarlega sem Drottinn lifir er sá sem þetta gerði dauðasekur. 6 Hann skal bæta lambið með fjórum lömbum af því að hann sýndi slíkt miskunnarleysi.“
7 Þá sagði Natan við Davíð: „Þú ert maðurinn. Svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Ég smurði þig til konungs yfir Ísrael og ég bjargaði þér úr hendi Sáls. 8 Ég gaf þér fjölskyldu herra þíns og lagði konur herra þíns í faðm þinn. Ég gaf þér Ísrael og Júda og hafi það verið of lítið gef ég þér gjarnan margt fleira. 9 Hvers vegna hefur þú lítilsvirt orð Drottins og gert það sem illt er í augum hans? Þú hjóst Hetítann Úría með sverði. Þú tókst eiginkonu hans þér fyrir konu og felldir hann með sverði Ammóníta. 10 Vegna þess að þú smánaðir mig og tókst þér eiginkonu Hetítans Úría fyrir konu skal sverðið aldrei víkja frá fjölskyldu þinni. 11Því að svo segir Drottinn: Ég mun láta ógæfu koma yfir þig úr þinni eigin fjölskyldu. Ég mun taka konur þínar frá þér fyrir augum þér og gefa þær öðrum manni. Hann mun leggjast með konum þínum um hábjartan dag. 12 Þú hefur unnið verk þín á laun en ég mun vinna þetta verk frammi fyrir öllum Ísrael um hábjartan dag.“
13 Þá sagði Davíð við Natan: „Ég hef syndgað gegn Drottni.“
Natan svaraði: „Drottinn hefur fyrirgefið þér synd þína. Þú munt ekki deyja. 14En vegna þess að þú hefur gefið óvinum Drottins tilefni til að smána hann mun sonur þinn, sem fæðist innan skamms, deyja.“